144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:43]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu og athugasemdir sem eru margar hverjar ágætar.

Varðandi það dæmi sem hv. þingmaður nefndi, um hvort við séum að miða við heildarframkvæmdina eða viðkomandi kafla, þá hvet ég hv. nefnd til að skoða þetta orðalag, vegna þess að í viðmiðunum í lið 1.3 segir, með leyfi forseta, í 2. mgr:

„Með tilliti til umhverfis- og öryggissjónarmiða skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar …“

Það er spurning hvort ekki sé hægt að skoða hvort það orðalag geti einnig farið á málsgreinar sem hv. þingmaður nefndi og gæti þá náð yfir það álitamál sem hv. þingmaður nefndi.

Varðandi þröngar skilgreiningar „í næsta nágrenni við“, „innan sjónmáls“ eða „innan friðlands“ eða hvort vera eigi meginregla varðandi meginflutningslínuna, þá er þetta tekið nánast orðrétt upp úr skýrslu nefndarinnar og áliti atvinnuveganefndar. Markmiðið er að hafa eins skýr viðmið og hægt er til að draga úr óvissu og draga úr ágreiningi um þetta, það skýrir það.

Varðandi samanburðinn við Noreg og Danmörku er athyglisvert að þingmaðurinn nefni einmitt þessi tvö lönd. Það er rétt, eins og fram kom hjá honum, að í Danmörku eru jarðstrengir meginlínan en þar er líka flatt landslag og sendinn jarðvegur. Í Noregi eru hins vegar háspennulínur meginreglan (Forseti hringir.) og þar erum við að tala um kletta og annars konar landslag sem hentar betur þannig að taka þarf tillit til þess í hverju tilviki fyrir sig.