144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:53]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari tillögu. Við fengum hana til meðferðar í atvinnuveganefnd á síðasta þingi og eins og kemur fram í greinargerð frá okkur má ljóst vera að hæstv. ráðherra hefur orðið við mörgum þeim ábendingum sem við settum fram og ég vil þakka það.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hér, hversu mikilvægt þetta mál er. Það einfaldar málið og stuðlar að því að fleiri raflagnir fari í jörðu. Ég get alveg tekið undir þær ábendingar sem einnig hafa komið fram og heiti því að við munum skoða það í atvinnuveganefnd að gera lítils háttar breytingar sem hnykki á þessum málum.

Þess má geta að það er ekki aðeins stofnkostnaðurinn sem talað er um að hafa til viðmiðunar, því að hér segir, með leyfi forseta:

„Við samanburð á kostnaði skal miða við núvirtan stofnkostnað og rekstrarkostnað yfir líftíma mannvirkisins.“

Þar er því ótvírætt tekið á því að það er rekstrarkostnaðurinn á líftímanum sem spilar inn í líka og það mun örugglega ýta undir að línur í jörð verða vænlegri kostur.

Svo er það markmið hér að 80% af öllum raflögnum, hvort sem það er í landshluta- eða meginflutningskerfinu, verði komin í jörð árið 2035. Mér finnst það talsverður metnaður. Þó að manni finnist það langt í dag, langur tími til 2035, þá er þessi tími fljótur að líða.

Um leið og ég lofa því að við skoðum þetta í atvinnuveganefnd þakka ég fyrir þetta þarfa mál.