144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 173/2013 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

340. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2013, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/33/EB, frá 23. apríl 2009, um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum.

Með tilskipuninni er stefnt að því að efla markaðinn fyrir hrein og orkunýtin ökutæki í gegnum opinber innkaup. Búist er við því að aukin eftirspurn muni virkja hvetjandi á bílaiðnaðinn til að fjárfesta í og þróa slík ökutæki frekar, auk þess sem stærðarhagkvæmni geti leitt til lækkunar á kostnaði. Tilskipunin kveður þannig á um að tekið skuli tillit til orkunýtingar og umhverfisáhrifa við opinber innkaup á ökutækjum til vegasamgangna til dæmis með því að skilgreina orku- og umhverfisþætti sem tækniforskrift við innkaup eða með því að fella kröfur um orkunotkun og umhverfisþætti inn í ákvörðunarferlið um innkaup, annaðhvort sem viðmið eða með því að meta þessa þætti til fjár.

Það athugast að einungis er skylt að taka hagkvæmasta tilboði. Þá á tilskipunin bara við um innkaup sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum EES á sviði opinberra innkaupa.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál. Stefnt er að því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um loftslagsmál á yfirstandandi þingi og verði tilskipunin í kjölfarið innleidd í formi reglugerðar með stoð í þeim lögum.

Tilskipunin kveður ekki á um með hvaða hætti hafa skuli eftirlit með því að reglum sé framfylgt, en kostnaður við innleiðingu tilskipunarinnar mun velta á umfangi eftirlits og hvernig það verður útfært.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðunni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.