144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

byggingarsjóður Landspítala.

169. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil svo sem út af fyrir sig hvað menn eru að fara þegar þeir segja að við ættum að leita leiða til að fjármagna spítalann þannig að öllum fyndist þeir eiga eitthvað í honum, en þá er spurningin: Væri réttlátt að setja nefskatt eða eitthvað slíkt til að byggja Landspítalann? Ekki eru þeir sanngjarnir. Við yrðum þá að ætlast til þess að jafnvel þeir sem sáralítið eiga eða ekkert hafa til að borga með væru líka að borga í þessu tilviki, í staðinn fyrir að fara alveg á hinn endann og segja: Er það ekki bara góð ráðstöfun að allra ríkasta fólkið á Íslandi leggi sérstaklega af mörkum til að við eignumst þennan nýja þjóðarspítala? Það mætti meðal annars færa fyrir því þau rök að væntanlega væri þetta fólk orðið vel efnað, jafnan á virðulegum aldri og ekkert langt í að það kæmi sér vel fyrir það að eiga góðan og nýjan Landspítala.

Burt séð frá því er ég einfaldlega þeirrar skoðunar að við eigum áfram að vera með einhvern auðlegðarskatt. Það er mín afstaða í skattamálum. Ég vísa aftur til Noregs. Ég held að það sé hollt fyrir menn að hugleiða að hinn olíuríki Noregur með svoleiðis bullandi afgang af ríkissjóði ár eftir ár leggur til hliðar og færir ekki inn í efnahagslíf Noregs gríðarlegar fúlgur fjár á hverju ári heldur inn í olíusjóð. Ekki eru Norðmenn í peningavandræðum, ekki er halli á ríkissjóði þar, en samt leggja þeir á auðlegðarskatt. Þeir taka formueskatt af því að þeim finnst sanngjarnt að ríkasta fólkið í Noregi leggi sérstaklega af mörkum í hina sameiginlegu sjóði.

Leiðin sem hér er valin er kannski líka af þeim ástæðum. Maður vonast til þess að menn treysti því betur að auðlegðarskatturinn yrði markaður tekjustofn nákvæmlega í þessu skyni. Það má segja að hann hafi verið markaður á vissan hátt í byrjun við það að byggja Ísland upp eftir hrunið. Ég man að ég sagði það oft þegar ég svaraði fyrir hann að það væri sanngjarnt að ríkasta (Forseti hringir.) fólkið í landinu hjálpaði til við að byggja upp Ísland. Væri ekki áfram sanngjarnt að það (Forseti hringir.) hjálpaði til við að byggja Landspítalann?