144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

byggingarsjóður Landspítala.

169. mál
[16:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. framsögumanni um að það eigi að borga hér auðlegðarskatt. Ég er mótfallin því að hann sé felldur niður.

Hv. þingmaður vitnar í dæmi frá Noregi. Nýjar rannsóknir sýna líka að á tímum eins og núna verða þeir ríku ríkari. Það þarf einmitt að jafna tekjubilið með því að vera svolítið óhræddur við það að leggja skatta á þá ríkustu í landinu, sem eiga mestu eignirnar, vegna þess að þeir hafa meiri tækifæri til að auka auð sinn en launþegar hafa á því að auka tekjurnar. Við erum sammála um það.

Það eina sem ég velti fyrir mér í þessu dæmi er mörkun tekjustofna fyrir spítalann. Það er í rauninni það eina sem ég velti fyrir mér. Það má vel vera að það sé tóm vitleysa, en ég velti því fyrir mér og mun gera áfram þangað til ég tek afstöðu til frumvarpsins.