144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

byggingarsjóður Landspítala.

169. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er hárrétt að það þyrfti ekkert mörkun þessara tekna. Ef menn tækju samtímis pólitíska ákvörðun um að ráðstafa um það bil svona fjármunum árlega í nýbyggingu Landspítalans þá væri alveg sama hvaðan krónurnar kæmu sem í það færu. Krónunum sem koma inn fyrir virðisaukaskatt annars vegar og tekjuskatt hins vegar er ekki haldið aðgreindum í ríkiskassanum eins og sumir virðast halda; þær eru allar eins í bókhaldi ríkisins. Eins yrði það auðvitað með áframhaldandi tekjur af auðlegðarskatti. Þær kæmu sér vel og byggðu til svigrúm þannig að það þyrfti í sjálfu sér ekki mörkunina þess vegna.

Ef menn væru frekar tilbúnir að afla tekna með sértækum hætti á grundvelli þess að þær væru skýrt markaðar í svona verkefni þá sýnir sagan okkur að stundum er það vænlegur kostur. Menn hafa verið hugmyndaríkir í gegnum tíðina í þeim efnum. Þegar hringvegurinn var lagður var happdrættisskuldabréfaútboð, ef ég hef heyrt rétt. Sú niðurstaða náðist að leggja á gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra til að byggja upp í því kerfi o.s.frv. Auðvitað eru fordæmi fyrir slíku.

Í öðru lagi er ég ákaflega sammála hv. þingmanni þegar kemur að samþjöppun auðs sem við sjáum að er skilgetið afkvæmi þess neo-kapítalisma sem hefur ráðið ríkjum mjög víða í vestrænum hagkerfum. Það er ekkert lát á þeirri þróun. Við sjáum bara af nýjum tölum frá Bandaríkjunum og víðar að auðurinn er að færast á færri hendur og alltaf að verða meiri og meiri. Það eitt og sér er auðvitað góð rök fyrir því að bremsa eitthvað þá þróun eða a.m.k. ná í eitthvað af þessum gríðarlega auði sem er aðallega fjármagnsauður. Fólk verður ríkara og ríkara af því það á orðið það mikla peninga að þeir ávaxtast. Einhverjir borga þá vexti. Þeir eru teknir út úr hagkerfinu, út úr veltunni. Sumir halda því reyndar fram að þetta sé það sem sé að gera vestræn hagkerfi ósjálfbær, þ.e. þegar auðsöfnunin fer umfram náttúrulegan vöxt (Forseti hringir.) í viðkomandi löndum og jafnvægishagvöxt. (Forseti hringir.) Þá er ekki óskynsamleg ráðstöfun efnahagslega (Forseti hringir.) að klípa eitthvað í það.