144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

58. mál
[17:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um umferðarljósamerkingar á matvæli. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni, Brynhildi Pétursdóttur, fyrir að flytja málið og ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanna sem hafa talað í málinu um að þetta sé jákvætt mál. Þetta er lýðheilsumál, þetta er neytendamál.

Flest þekkjum við það að kaupa inn á hlaupum, ef hægt er að orða það þannig, og hér er verið að bregðast við því þannig að við getum með merkjanlegum og greinanlegum hætti fengið upplýsingar um næringargildi vörunnar sem við veljum úr hillum verslana. Það getur vissulega auðveldað okkur lífið og hjálpað okkur til við að velja sem hollast án þess að við stöldrum við hverja einustu vöru úr því fjölþætta framboði sem við rekumst á í hillum verslana og rýna aftan á pakkningar til að reyna að komast að því hvert næringargildið er. Hér er leið til þess að hjálpa okkur að taka ákvörðun um að velja hollar vörur eða hollari vörur þegar við berum saman vörur sem við kaupum inn dagsdaglega.

Í tillögunni er vísað í rannsóknir, þetta er vönduð tillaga, og bent á að slíkar merkingar sem lagt er til að taka hér upp, litamerkingar, hafi náð árangri, séu skilvirkari upplýsingatæki og hjálpi okkur að fara nærri sannleikanum um næringarinnihald og spari tíma.

Þegar við tölum um lýðheilsu vil ég meina að aukin meðvitund sé um lýðheilsu og mikilvægi lýðheilsu. Hér erum við að hjálpa neytendum fyrst og fremst að taka ábyrgð á eigin heilsu. Til lengri tíma getur þetta hjálpað í baráttunni gegn ýmiss konar lífsstílssjúkdómum sem rekja má til mataræðis eða óhollustu og óhollrar fæðu.

Í skýrslu sem vísað er til í tillögunni munu slíkar merkingar sannarlega auðvelda að velja heilsusamlegri vörur. Þær gera samanburð auðveldari og ekki er vanþörf á í þessum framleiðsluheimi þar sem framboðið af mat og drykkjarvöru er sífellt að aukast. Við leggjum hér til að styðja neytendur í að velja hollar.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á skuggalegar tölur sem getið er um í tillögunni. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þær upp aftur, þetta eru skuggalegar tölur:

„Tæplega 59% fólks á aldrinum 18–80 ára eru yfir kjörþyngd …“

Ég vil taka undir orð hv. þingkonu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur um þá aukningu sem kemur fram í tillögunni, hún er skuggaleg, þar sem hlutfallið var 13,1% árið 2002 hjá þeim sem flokkast með offitu en er komið í 21% 2011. Ég held að við eigum að leita allra leiða til að bregðast við því vandamáli.

Ég vona innilega og hef trú á því að tillagan fái jákvæða umfjöllun og komist skjótt til nefndar og málið fái framgang í kjölfarið.