144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

58. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur verið. Málið var sent til allsherjar- og menntamálanefndar á síðasta þingi og við óskum eftir að það verði sent þangað aftur. Það er þó alveg spurning hvort það ætti heima hjá velferðarnefnd, þetta er kannski svolítið svoleiðis mál, og svo mætti líka hugsa sér atvinnuveganefnd vegna þess að þetta snýst um merkingar á matvælum og það heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En ég met það svo að málinu sé vel borgið í allsherjar- og menntamálanefnd, sem á að fjalla um neytendamálin. Ég held því að það sé bara í góðum farvegi.

Ég vonast til að fleiri umsagnir komi en síðast. Mér finnst þetta vera stórt mál og mikilvægt og hefði haldið að allir þeir sem hafa einhvern áhuga á lýðheilsu mundu notfæra sér það að senda inn umsagnir og vona að það verði tilfellið núna. Ég vil ítreka að þetta snýst um rétt neytenda til upplýsinga og hann er ótrúlega mikilvægur. Við getum ekki talað um að fólk eigi að taka ábyrgð á eigin heilsu ef upplýsingarnar á matvælum eru þannig að fólk skilur þær ekki. Ef ég á að taka ábyrgð á eigin heilsu verð ég að fá skiljanlegar upplýsingar, um það snýst málið.