144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

274. mál
[18:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég reyni alltaf að ræða um stjórnarskrármálið óbitur. Það er svolítið erfitt miðað við það sem á undan er gengið. Mig langar að nefna eitt sérstaklega sem hefur verið talað um svo oft og svo lengi, og ég fæ ekki skilið hvernig menn geta sett sig upp á móti, en það eru bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru knúnar fram af kjósendum sjálfum.

Samkvæmt tillögu að nýrri stjórnarskrá, sem kom fram á sínum tíma, átti að þurfa 10% kosningarbærra manna til að knýja fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefði samþykkt. Mér finnst þetta sjálfsagt. Ef hægt er að draga 10% kjósenda til að mótmæla lögum sem Alþingi hefur sett þá finnst mér það sjálfsagt siðferðislega að þjóðin fái að kjósa um þau.

Það hefur aldrei verið auðveldara að framkvæma slíkar hugmyndir og koma þeim í verk með góðu móti. Tæknin er tiltölulega einföld. Hún er ódýr. Hún er skilvirk. Jafnvel ef menn vildu fara út í lausnir eins og að kjósa á netinu þá er hægt að gera það. Það hefur sína kosti, það hefur sína galla, sérstaklega þegar kemur að kosningaleynd. Það er ekki hægt að passa að fólk sé einsamalt við tölvuna heima hjá sér, en á móti kemur að það er heldur ekki hægt að passa með góðu móti að fólk taki ekki myndir af kjörseðlinum í kjörkassanum og sendi á einhvern annan af einni eða annarri ástæðu.

Það dregur mig út í annað sem ég vil ræða, sem er það að við búum á nýjum tímum. Það er kannski búið að segja það aðeins of oft, svo oft að það er orðin einhvers konar klisja. En það er tilfellið, það er staðreynd, það ætti ekki að vera umdeilt. Það er algjörlega sjálfsagt að við af og til — ekki á hverju ári, ekki einu sinni endilega á hverri einustu öld til lengri tíma litið, en við grundvallarbreytingar á mannlegu samfélagi — endurskoðum grunngildin sem við ætlum að stjórna landinu eftir.

Eitt af þessum grunngildum er gegnsæi sem vegna tæknibyltingar er allt annað mál en það var fyrir 100 eða 200 árum. Sömuleiðis persónuvernd, sem aftur er allt annað mál en það var fyrir 100 eða 200 árum. Og lýðræðið sjálft. Möguleikar á því að kjósa um hvað við getum kosið, hversu oft o.s.frv. Allt er þetta eitthvað sem við getum og eigum að hugsa upp á nýtt. Það er þyngra en tárum taki hvernig farið hefur fyrir þessu máli.

Ég óska eftir því að einhver geti útskýrt fyrir mér hvers vegna ekki eigi að leyfa þjóðinni að ákveða eigin lög. Hvernig stendur á því að okkur finnst það ekki bara sjálfsögð og góð hugmynd, eins gömul og hún er og góð miðað við margt annað sem mönnum hefur dottið í hug, að fólk geti sjálft ákveðið hvernig þetta eigi að vera?

Hvaða lög gætum við sett hér sem við ættum ekki að geta útskýrt fyrir þjóðinni að séu góð? Hvernig fengum við þá hugmynd að á fjögurra ára fresti fái fólk einn bókstaf — einn bókstaf, ekki einu sinni fullt sett af bókstöfum í hinu íslenska stafrófi — til að segja allt sem það hefur að segja um hvernig landinu verði stjórnað næstu fjögur árin? Ef maður leggur þetta svona upp, hverjum finnst þetta góð hugmynd miðað við það sem við gætum gert jafnvel án nútímatækni?

Kosningar eru ekki nýjar af nálinni. Við eigum ekki að láta eins og þetta sé eitthvert óyfirstíganlegt verk.

Ég held ég hafi ræðu mína ekki lengri að þessu sinni en bið fólk að íhuga vel og vandlega hvernig það geti verið á móti auknu lýðræði.