144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

29. mál
[18:30]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Hvort svigrúmið sé nóg í dag, þá hef ég ekki velt því mikið fyrir mér en ég gæti í fljótu bragði alveg séð það fyrir mér að sama útsvar væri alls staðar og mismunurinn færi í jöfnunarsjóð. Ég sé það mikið frekar fyrir mér því að nógur er munurinn samt á þjónustunni, á aðgengi að menningu og öðru slíku eins og í stærri byggðarlögunum. Mér finnst það bara auka á ójöfnuðinn ef það á svo að vera með hærra útsvar þar sem þjónustan er jafnvel minnst.

Varðandi sameiningar sveitarfélaga eiga þær sums staðar við, sérstaklega í þéttbýlinu þar sem sveitarfélögin liggja beinlínis saman, um sömu götu. Það væri ótvíræð hagræðing. Það get ég heils hugar tekið undir. En um sameiningar sveitarfélaga í hinum dreifðu byggðum er ég ekki eins sannfærður, að sameina stór byggðarlög sem henta ekki landfræðilega. Hvort sem um er að ræða sameiningu hjá fyrirtækjum, stórum stofnunum eða sveitarfélögum þá er hættan alltaf sú að fjármagnið og þjónustan sæki í stærri kjarnana. Þegar sveitarfélög þurfa að hagræða þá hættir þeim alltaf til að gera það á sem hagstæðastan hátt sem (Forseti hringir.) bitnar á dreifbýlinu.