144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Mikill þrýstingur er á að gengið verði frá kjarasamningum sem fyrst við ýmsar stéttir og krafan um launahækkanir er oft mikil og hávær í þjóðfélaginu. Ástæða þess að ég tek þetta upp hér í dag er að Seðlabankinn tilkynnti í morgun um lækkun stýrivaxta um hálft prósentustig. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við það tækifæri að komandi kjarasamningar væru fíllinn í herberginu. Verði launahækkanir í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun. Miklar launahækkanir gætu hins vegar grafið undan þessum nýfengna verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.

Í hádegisfréttum RÚV sagði Már að allir dauðöfunduðu Íslendinga af stöðunni í efnahagsmálum. Hann sagði að útlitið væri harla gott en að ýmislegt gæti farið úrskeiðis. Þess vegna yrðum við að vera á varðbergi, t.d. varðandi launaákvarðanir og hagstjórn. Þetta er allt rétt og satt. Efnahagslífið er í uppsveiflu. Hagvöxtur er góður og atvinnuleysi minnkar hratt. Verðbólga er lítil og eftir helgi munu um 69 þúsund heimili fá skuldaleiðréttingu.

Már Guðmundsson minnist á launahækkanir. Það er rétt að miklar launahækkanir munu eflaust rugga bátnum. Verðbólga getur farið af stað og lánin hækka. Það vilja fæstir.

Í sviðsljósinu eru sérstaklega samningar við lækna og tónlistarkennara og aðrar stéttir bíða átekta. Það þarf að hækka laun þeirra lægst launuðu sem hafa dregist aftur úr. Við getum flest verið sammála um það. Það þarf að hækka laun lækna og fjölmargra annarra stétta. Við megum einfaldlega ekki við því að missa fleiri lækna úr landi og við getum ekki lengur horft upp á það ástand sem er á Landspítala. Semjum samt af skynsemi. Bætum kjör þeirra lægst launuðu og hlustum á raddir samfélagsins.