144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég hef mikinn áhuga á að vita hver vaxtagjöld ríkisins eru frá hruni vegna lána sem tekin voru til að bjarga fjármálakerfinu. Ég hef heyrt að sú tala sé í kringum 58 milljarðar kr. Getur það staðist? Vegna þessa hef ég ákveðið að senda hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skriflega fyrirspurn þessa efnis til að fá töluna á hreint. Það er áhugavert að vita hvort þessar tölur séu réttar því að sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haft uppi stór orð og talað um að þeim 80 milljörðum sem fara eigi til heimilanna sé illa varið.

Ég skil ekki þingmenn sem tala svona. Af hverju er í góðu lagi að greiða tugi milljarða til fjármálastofnana? Þegar kemur að heimilum landsins láta nokkrir þingmenn svona orð falla: Arfavitlaus skuldaniðurfelling.

Og, með leyfi forseta:

„Við teljum arfavitlausa fásinnu að fara í þessar skuldaleiðréttingaraðgerðir með þessum gríðarlega tilkostnaði fyrir hið opinbera.“

Hvað er vaxtakostnaður vegna fjármálakerfisins annað en gríðarlegur tilkostnaður fyrir hið opinbera? Hvers vegna finnst sumum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar í lagi að fjármálastofnanir sogi sífellt til sín fjármagn frá heimilum landsins? Þegar kemur að því að skila hluta til baka heyrist annað hljóð. Þeim finnst það ósanngjarnt.

Það er að mínu mati algjörlega óskiljanlegt.

Á sama tíma fara nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar með rangt mál og segja leiðréttinguna gagnast að mestu hátekjufólki. Málflutningurinn er rangur. Staðreyndin er sú að skuldaleiðréttingin er þannig útfærð að þeir tekjulægri fá hlutfallslega meira. Hátt í helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með undir 6 millj. kr. í árslaun, heimila þar sem tveir einstaklingar eru hvor um sig með 250 þús. kr. í mánaðarlaun.

110%-leiðin nýttist aðeins 10% heimila í landinu með verðtryggðar húsnæðisskuldir og um 1% heimilanna hreppti helming niðurfærslunnar, þ.e. 20 milljarða kr. Þau 775 heimili fengu hvert um sig 15 millj. kr. niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu 26 millj. kr. Meðaltekjur þessara heimila voru 750 þús. kr. á mánuði og dæmi eru um að menn hafi haft yfir 2 milljónir á mánuði.

Kæru hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar: Lítið ykkur nær.