144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni þá staðreynd að alþjóðleg samtök blaðamanna, International Press Institute, hafa fordæmt aðstoðarmann hæstv. innanríkisráðherra fyrir það að krefjast fangelsisdóms yfir blaðamönnum DV, þeim háttvirta blaðamanni Jóni Bjarka Magnússyni og háttvirta blaðamanni Jóhanni Páli Jóhannssyni. Þetta er fyrir það sem virðast vera heiðarleg mistök af þeirra hálfu sem þeir hafa beðist afsökunar á og voru leiðrétt í sama blaði.

Það er ekki af vorkunn minni við þá tilteknu háttvirtu blaðamenn sem ég nefni þetta heldur vegna þess að árið 2010, þann 16. júní, var samþykkt á hinu háa Alþingi þingsályktunartillaga um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Ég vil lesa úr henni, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.“

Síðan er auðvitað meira í ályktuninni sjálfri. Þetta var samþykkt samhljóða á hinu háa Alþingi. Allir hafa sýnt þessu verkefni einhvers konar skilning í orði en þegar kemur að verkunum er af færri hlutum að taka.

Það sem gerist núna trekk í trekk er að erlendir blaðamenn benda á þá staðreynd að hér erum við eftirbátar í tjáningarfrelsismálum — enn þá. Við ætluðum að reyna að vera til fyrirmyndar, við ætluðum að reyna að sýna öðrum hvernig ætti að haga tjáningarfrelsi. En, nei, virðulegi forseti, þrátt fyrir að liðin séu fjögur ár frá því að hið háa Alþingi ákvað að vera til fyrirmyndar í þessu erum við enn þá til skammar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.