144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til þess að hnykkja á máli sem tveir hv. þingmenn hafa vakið athygli á og það er ákvörðun meiri hluta umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sem var tekin rétt áðan. Þar var samþykkt að breyta deiliskipulagi Hlíðarendasvæðisins þannig að byggingarmagn yrði aukið úr 360 íbúðum í 600. Nú hafa færir sérfræðingar bent á að með þessari ákvörðun sé verið að rýra notagildi flugvallarins til mikilla muna og ef haldi fram sem horfi verði ekki hægt að nota hina svokölluðu neyðarbraut ef framkvæmdaleyfi verði veitt í kjölfarið.

Fyrir ekki svo löngu síðan var gert samkomulag milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um innanlandsflug, en á borgarafundi sem var haldinn um daginn sagði forstjóri Icelandair Group, Björgólfur Jóhannsson, að hann teldi að ef af þessari ákvörðun yrði væri verið að brjóta anda þessa samkomulags.

Ég verð því í ljósi þessa að fordæma þá ákvörðun sem meiri hluti borgaryfirvalda tók í dag. Ég gagnrýni hana harðlega. Við í Framsóknarflokknum höfum verið samhljóma um að við viljum að öll þjóðin fái að taka ákvörðun um þetta mikilvæga málefni og við munum leggja fram frumvarp þess efnis væntanlega á morgun.

Einn stjórnmálaflokkur hefur talað kannski skýrar en aðrir um að hann styðji það að flugvöllurinn fari á brott. Þess vegna spyr ég hv. þm. Guðmund Steingrímsson hvort hann sé ekki jafn óánægður og ég með það að verið sé að rjúfa það samkomulag sem var gert á milli þessara (Forseti hringir.) þriggja aðila.