144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

orð formanns umhverfis- og samgöngunefndar.

[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það sé ekki í fyrsta sinn sem þingmaður sér sig knúinn undir liðnum um fundarstjórn forseta að leiðrétta ef heiftarlegar rangfærslur eru uppi í máli manna. Ég hygg að það hafi að minnsta kosti hent margan þingmanninn í þessum sal og ekki hefur alltaf verið lamið af þessu offorsi í bjölluna við slík tækifæri.

Ég held að það hafi verið full ástæða til að koma þeim leiðréttingum á framfæri sem hér var gert undir þessum lið.

Ég vil í öðru lagi segja að þegar við þingmenn ákveðum að gera ummæli annarra þingmanna að umfjöllunarefni í ræðustólnum, gera við þau alvarlegar athugasemdir, mættum við oftar gefa viðkomandi þingmanni tækifæri á að vera viðstaddur og svara fyrir sig. Ekki svo að skilja að orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar (Forseti hringir.) á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar standi ekki alveg fyrir sínu, (Forseti hringir.) en ég held að það fari best á því að við ræðum hvert við annað um ummæli hvers annars.