144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

Orkustofnun og leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

10. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu á þskj. 457 frá atvinnuveganefnd við 10. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, og lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum, sem nánar fjallar um niðurlagningu orkuráðs.

Atvinnuveganefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Barðadóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Með frumvarpinu er lagt til að orkuráð verði lagt niður en slíkt var lagt til í tillögum nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs frá mars 2011. Verði frumvarpið að lögum munu verkefni orkuráðs flytjast til Orkustofnunar og sérstakri ráðgjafarnefnd Orkusjóðs verður þá falið að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Í athugasemdum við frumvarpið eru nefndar tvær ástæður fyrir því að leggja sérstakt orkuráð niður, í fyrsta lagi að Orkustofnun sé stjórnað af sérstökum árangursstjórnunarsamningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og í öðru lagi að aðkoma ríkisins að orkumálum hafi tekið miklum breytingum frá því að ráðið var sett á laggirnar. Einnig kemur fram í athugasemdum að viðfangsefni ráðsins hafi í ríkari mæli færst yfir í að meta tæknilega möguleika og útfærslur vegna verkefna Orkusjóðs.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er lagt fram nú að teknu tilliti til þeirrar breytingar sem atvinnuveganefnd lagði þá til, þ.e. að umrædd nefnd kallist ráðgjafarnefnd en ekki úthlutunarnefnd.

Atvinnuveganefnd lagði þá einnig til að lögin tækju gildi 15. september 2014 í stað þess að þau öðluðust þegar gildi eins og stóð í upphaflegu frumvarpi. Í frumvarpinu nú er í 4. gr. kveðið á um að lögin öðlist þegar gildi. Nefndin leggur til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2015 til þess að unnt verði að ljúka þeim málum sem nú liggja fyrir.

Sá sem hér stendur var ásamt Páli Jóhanni Pálssyni og Þorsteini Sæmundssyni fjarverandi við afgreiðslu málsins en þeir rita undir nefndarálitið samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingartillögu sem ég hef hér gert grein fyrir, þ.e. að 4. gr. orðist svo að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2015.

Eftirtaldir hv. þingmenn skrifa undir nefndarálitið: Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, Kristján L. Möller, framsögumaður málsins, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.