144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:13]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að leggja fram þessa góðu og mikilvægu þingsályktunartillögu. Ég tel þetta vera mjög mikilvæga tillögu og vona að henni verði vel tekið í umræðu í þinginu og í nefndum þingsins. Ég vona að tillagan nái fram að ganga.

Það er mjög mikilvægt að skima fyrir þessum þáttum hjá fólki til þess að hægt sé að bregðast við sem fyrst ef um einhvern vanda eða vanlíðan er að ræða. Þegar einstaklingar þurfa að vinna með geðrænan vanda, hafa einhverjar slíkar greiningar, þá skiptir íhlutun á fyrstu stigum öllu máli. Það gefur þeim einstaklingum mikilvægt tækifæri til þess að bæta líðan sína, sem skiptir öllu máli, og taka virkan þátt í samfélaginu. Það á bæði við um ýmsar geðraskanir og um ýmsa þætti er við koma ýmsum greiningum og slíkum þáttum.

Ég vona að þingmenn taki vel í þetta mál og átti sig á því að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég vona að við náum að koma þessu af stað sem fyrst því að mikilvægt er að við getum byggt upp góða og öfluga geðheilbrigðisþjónustu hér á Íslandi sem við getum öll verið stolt af.