144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir þessi orð og legg áherslu á að þessi vandi er miklu stærri en flestir halda. Ég ítreka það sem fram kom í ræðu minni áðan varðandi stöðuna í Breiðholti þar sem þetta mál var kannað sérstaklega. Þar voru lagðir spurningalistar fyrir öll börn í ákveðnum árgangi þar sem spurt var um þessi mál, viðhorf barnanna voru fengin og spurt var um líðan þeirra. Þetta var gert fyrir tveimur árum og kom í ljós að allt að 26% stúlkna sem tóku þátt áttu í verulegum erfiðleikum og vanda.

Bara með því að bjóða þessum stúlkum og foreldrum þeirra upp á þótt ekki væri nema viðtal eða eitthvað álíka, væri hægt að lækka þessa tölu niður í kannski 10%, 12%, 13%. Það er ekki mikill kostnaður við það. Í stað þess að þessi börn og unglingar þurfi að burðast með vandamál sín áfram og fara hugsanlega á lyf í framtíðinni — ég tala nú ekki um hversu mikil áhrif þetta hefur á skólagöngu þeirra, félagsfærni og allt slíkt — væri hægt að ná gríðarlega miklum árangri með einföldum aðferðum, ekki mjög flóknum og ekki mjög dýrum. Um það snýst tillagan, að grípa inn í fyrr og setja ekki börn og unglinga á lyf eins og svo oft er gert, heldur finna aðrar aðferðir sem skila jafnvel mun betri árangri og kosta mun minna.