144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:20]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að þakka sérstaklega hv. þm. Karli Garðarssyni og meðflutningsmönnum hans á þessari þingsályktunartillögu fyrir að leggja hana fram. Að mínu mati er allt of lítið gert af því á hinu háa Alþingi að ræða málefni barna og ungmenna. Þetta er hópur sem á sér sjaldnast málsvara og rödd þeirra heyrist í gegnum raddir okkar fullorðna fólksins. Það sem skortir á að mínu mati, og ég hef heyrt marga taka undir það sem starfa með börnum og unglingum, er að við hlustum á börnin, hlustum á það sem þau segja. Ég fagna því mjög að þetta málefni sem tengist þeim á mikilvægan hátt sé komið fram.

Ég fagna því enn fremur að þingmaðurinn kemur með nýjar vinnuaðferðir í þessari þingsályktunartillögu sem ég hef ekki séð notaðar hér á landi, en hann talar um skimun fyrir þunglyndi og kvíða. Þetta eru akkúrat réttu vinnubrögðin til að ná að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann, að við náum að stöðva þetta ferli hjá börnum og unglingum eins fljótt og hægt er og með hjálp foreldra þeirra. Mér finnst þessi hugmynd afar góð.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja frá því að undirrituð og hv. þm. Karl Garðarsson ásamt fleiri þingmönnum úr öllum flokkum á Alþingi hafa gengist undir það að vera sérstakir talsmenn barna og ungmenna á Alþingi og það eru samtökin Barnaheill, UNICEF og umboðsmaður barna sem hafa farið fram á það. Ég mun halda áfram í seinna andsvarinu en vil spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort hann sjái einhverja leið til að þessu máli verði hraðað sem mest.