144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að flytja þetta mál sem ég er meðflutningsmaður að. Mér finnst þetta afar gott og brýnt mál. Í rauninni finnst mér ótrúlegt hvað við erum oft að flytja hér mál sem miða að því að móta stefnu í hinum og þessum mikilvægu málum þar sem ég hélt að alltaf ætti að vera til stefna og við værum alltaf að vinna eftir einhverri góðri stefnu sem við værum í raun bara að uppfæra. En þar sem ég þekki til í þessum málaflokki er mjög víða pottur brotinn. Mér finnst við í rauninni ekki geta verið þekkt fyrir það að setja ekki peninga í málaflokk sem snýr að börnum og geðheilbrigðisvandamálum sem þau eiga við að stríða.

Staðan er kannski þannig að það þyrfti að fara í þetta mál sem fyrst. Ég vona að það fái góða umfjöllun í nefnd og við getum samþykkt það. Það er afar brýnt og staðan er alvarleg í dag. Það eru biðlistar eftir greiningu. Aðgengi að geðlæknum og sálfræðingum er ekki nógu gott. Það eru líka fáir barna- og unglingageðlæknar starfandi á Íslandi. Þeir eru held ég allir á höfuðborgarsvæðinu, utan einn sem er á Akureyri. Mér finnst líka mjög alvarlegt hvað sálfræðiþjónusta er dýr og að hún sé ekki hluti af heilbrigðiskerfinu. Við niðurgreiðum lyf og spyrjum engra spurninga þegar það er gert, en það er eitthvað voðalega erfitt að niðurgreiða sálfræðiþjónustu sem ég held að væri vænlegri kostur ef hún virkar, þótt það sé auðvitað ekki alltaf þannig.

Tillögunni fylgir mjög ítarleg og góð greinargerð og þar kemur einmitt fram þessi punktur um sálfræðiþjónustuna og að í rauninni séu foreldrar að greiða fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga og oft er ekkert annað í boði. Þá gerum við upp á milli barna. Þá fer það eftir efnahag foreldranna hvort þeir fá þjónustu eða ekki. Eins er það með sálfræðinga í skólum. Það er athyglisvert verkefni sem hefur verið í gangi í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem sálfræðingur hefur verið í hálfu starfi og reynst vel. Það ætti klárlega að skoða hvort þetta sé ódýr leið til að berjast gegn brottfalli.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, en ég er afar ánægð með þetta mál og vona að það fái framgang.