144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

mál stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi ber fram fyrirspurn og þyrlar um leið upp talsverðu ryki og reyk. Það verður að segjast eins og er að ekki er gott að ræða svona mál málefnalega og yfirvegað þegar andrúmsloftið er mettað reyk og ryki.

Komið hafa fram ýmiss konar fullyrðingar í fjölmiðlum og það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er afar óheppilegt að slíkt sé til umfjöllunar þegar í hlut á stjórnarmaður eða stjórnarformaður í Fjármálaeftirlitinu. Þess vegna var það mikilvægt að stjórnarformaðurinn skyldi gefa út yfirlýsingu, tjá afstöðu sína til þeirra fullyrðinga sem hafa verið í umræðunni og taka af skarið með það að þetta ætti ekki við rök að styðjast.

Spurt er hvort mér hafi verið kunnugt um að viðkomandi hafi á einhverjum tímapunkti verið kærður. Mér var kunnugt um það. Það frétti ég eftir að ég tók ákvörðun um að skipa viðkomandi í stjórnina en mér var um leið kynnt að löngu áður hefði málið verið látið niður falla. Það þýðir að ekki þóttu efni til að bregðast við kærunni.

Nú skulum við velta því fyrir okkur hvernig eigi að fara með þá einstaklinga í samfélaginu sem eru bornir sökum en ekki reynist vera ástæða til að gera neitt frekar í málinu, fella úrskurði, ákæru eða dóma í tilefni af slíkum kærum, þegar slíku er ekki til að dreifa hvort viðkomandi eigi þá að láta skuggann af kærunni fylgja sér inn í framtíðina og jafnvel um alla framtíð.

Mín skoðun er sú að þegar mál eru látin niður falla sé þeim lokið. Þess vegna hafði það ekki áhrif til endurskoðunar á þeirri ákvörðun minni að óska eftir því að viðkomandi mundi gegna formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Það hefur síðan aldrei komið upp ein einasta kvörtun vegna starfa viðkomandi þann tíma sem hún hefur verið í stjórninni en hún hefur nú tjáð mér að hún sækist ekki eftir endurskipun í stjórnina.