144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

starfsemi Aflsins og fleiri samtaka.

[10:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þegar ég fékk hana síðast útskýrði ég einmitt í því tilviki að Aflið skyldi óska eftir að sækja um þá fjármuni sem við hefðum þegar úthlutað til þessa málefnis. Ég hef ekki upplýsingar um hvort Aflið hafi gert það en ég reikna fastlega með því.

Við höfum líka farið yfir það hvað við getum gert til að aðstoða Aflið enn frekar. Ég bendi á að brátt rennur út umsagnarfrestur um félagsstyrki vegna gömlu safnliðanna, þann 10. nóvember, og ég hvet Aflið og önnur frjáls félagasamtök til að sækja endilega um þá.

Við höfum líka farið yfir hvað við getum gert almennt sem snýr að ofbeldismálum og ekki hvað síst hvernig við getum mælt barnaverndarstarfið hringinn í kringum landið. Ég tel að starf Aflsins og annarra frjálsra félagasamtaka sé einmitt mjög mikilvægt hvað þetta varðar.

Ég hef líka lagt áherslu á að þau stóru og öflugu frjálsu félagasamtök sem eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu sinni öllu landinu og ég reikna fastlega líka með því. Ég veit að bæði Stígamót og Kvennaathvarfið hafa gert það og tel að möguleikar eigi að vera á að efla það enn frekar.