144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

fjármagn til verkefna sem ákveðin eru með þingsályktunum.

[10:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 16. júní 2010 var samþykkt þingsályktunartillaga á hinu háa Alþingi og féllu atkvæði þannig að 50 sögðu já og 0 sögðu nei, einn greiddi ekki atkvæði. Þessi þingsályktunartillaga varðaði það að gera Ísland leiðandi og til fyrirmyndar í tjáningarfrelsismálum.

Þann 12. maí 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

Það sem þessar tvær tillögur eiga sameiginlegt er að þær eru nefndar í bréfi sem kom frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þar sem tilgreint var að ástæðan fyrir því að þessi verkefni hefðu ekki komist lengra en óskað var eftir væri sú að það vantaði fjármagn. Fyrst um sinn taldi ég að þetta væri vandamál þingsins en síðan er mér tjáð að þetta sé ekki venjan, að hæstv. ráðuneyti láti ákvarðanir bíða sem hafa verið teknar af Alþingi vegna fjárskorts. Ég velti því fyrir mér hver sýn hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er þegar kemur að því að framfylgja þeim vilja sem hið háa Alþingi hefur gert skýran.