144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

fjármagn til verkefna sem ákveðin eru með þingsályktunum.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ef hér er verið að spyrja almennt í tilefni af þessum ákveðnu málum er það almennt svo að mikilvægt er þegar þingið felur framkvæmdarvaldinu einhver tiltekin verkefni að gætt sé þá að því, t.d. í fjárlögum eða annars staðar þar sem þörf krefur, að framkvæmdarvaldið hafi tæki og tól til að fylgja slíkum ákvörðunum eftir. Eins og við vitum hafa þingsályktunartillögur þýðingu en þær hafa aðra þýðingu en lög.

Ég mundi þess vegna almennt vilja segja að það er minn skilningur og reyndar mín upplifun af framkvæmdarvaldi í ráðuneytunum, að því er almennt fylgt eftir sem hér er samþykkt á Alþingi. En þess eru auðvitað dæmi að bæði þingsályktanir feli fyrst og fremst í sér einhverja pólitíska yfirlýsingu eða að farið sé fram á að einhver verk séu unnin án þess að því sé fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlögum eða í þriðja lagi að verkefnin sem um er rætt séu kannski meira en pólitísk yfirlýsing en hægt sé að útfæra þann vilja með margvíslegum hætti. Í þeim tilteknu málum sem hv. þingmaður vekur hér athygli á verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki nákvæmlega hver staðan er.