144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

fjármagn til verkefna sem ákveðin eru með þingsályktunum.

[10:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherranum svarið. Ég tel það lykilatriði að ákvarðanir Alþingis standi og að farið sé eftir þeim. Það er framkvæmdarvaldið sem á að framfylgja vilja Alþingis. Við erum oft spurð sem þingmenn hvers vegna ekki séu meiri peningar í þessu og meiri peningar í hinu og við verðum að geta tekið þær ákvarðanir. Þess vegna er fjárlagavinnan þegar allt kemur til alls, að minnsta kosti formlega, í höndum þingsins.

Það þarf að tryggja fjármagn til handa verkefnum á borð við þessi vegna þess að þau kosta peninga. Það kostar peninga að halda íslenska tungu á 21. öldinni, það kostar peninga að halda starfshópa sem eiga að tryggja viðunandi, og reyndar til fyrirmyndar, tjáningarfrelsi á Íslandi. Því spyr ég hæstv. ráðherra í ljósi svara hans hvort búast megi við stuðningi hæstv. ráðherra þegar kemur að því að veita fé í þessa tilteknu málaflokka þegar 2. umr. um fjárlög hefst.