144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði.

[11:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Rétt aðeins til að reyna að botna þetta Eyrarmál áður en ég svara hinum þáttunum, það er einfaldlega þannig að í upphaflegu tillögunum varðandi leiguleiðina var ekki gert ráð fyrir því að Ísafjörður og einhver annar staður væru inni. Svo var þeim bætt við á þeirri forsendu að það yrði að byggja þarna yfir ný rými en forsendan var sú að fjárveitingar til þeirra rýma sem fyrir voru og átti að færa þarna inn fylgdu endurbyggingu heimilisins. Upplýsingar mínar herma að það eigi að vera til fyrir þessu í fjárlögum og við vorum að skiptast á upplýsingum, ég og fyrrverandi velferðarráðherra, og skilningur okkar er sá sami á þessu.

Varðandi skýrslu Ríkisendurskoðunar, að sjálfsögðu munum við fara að þeim ábendingum sem þar eru og beint er til ráðuneytisins. Við erum þegar byrjuð að vinna að sumum þeirra.

Varðandi bættu upplýsingagjöfina svöruðum við Ríkisendurskoðun og spurðum meðal annars hvaða heimildir ríkið hefði til þess að fara inn í rekstur tiltekinna stofnana, (Forseti hringir.) hvort heldur á vegum sveitarfélaga eða sjálfstætt starfandi stofnana og við fengum ekki afdráttarlaus fyrirmæli um það. Við munum að sjálfsögðu fylgja því eftir.