144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Verkfallsaðgerðir lækna hafa nú staðið í hálfa aðra viku. Ástandið á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum er víða orðið alvarlegt enda víða biðlistar og þegar eitthvað raskast fer af stað keðjuverkun. Í Læknafélagi Íslands eru um 1 þúsund félagsmenn en verkfallsaðgerðirnar taka til 800 lækna þannig að þegar þeir leggja niður vinnu þá gerist eitthvað.

Ástæða er til að taka það fram að verkfallsaðgerðir lækna eru skipulagðar af mjög mikilli ábyrgð og þunginn í aðgerðunum gæti verið miklu meiri ef svo væri ekki. Íslenskir læknar eru með þessu fyrsta verkfalli sínu að minna okkur á hvers virði störf þeirra eru og hve langþreytt stéttin sé orðin. Hvers vegna? Að sjálfsögðu vegna langvarandi niðurskurðar. Það deilir enginn um að niðurskurðurinn hefur verið mikill og hann hefur staðið lengi. Raunveruleikanum er auðveldlega hægt að fletta upp. Það má sjá t.d. í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans 30. október þar sem segir að athyglisvert sé að á sama tíma og rekstur ríkissjóðs fari batnandi þróist rekstur LSH, Landspítalans, til hins verra. Í þessari Hagsjá er sjónum einkum beint að Landspítalanum. Við erum minnt á það að hvort sem litið er til hlutdeildar í ríkisútgjöldum eða til framlags hvers Íslendings í krónum talið til Landspítalans þá fari hlutur spítalans versnandi. Þannig hafi það verið svo á árinu 2013 að hver Íslendingur hafi greitt um 127 þús. kr. til Landspítalans, en á sama verðlagi hafi þessi upphæð verið 160 þús. árið 2008. Og vel að merkja, á árunum í aðdraganda hrunsins hafði átt sér stað talsverður niðurskurður til þessara stofnana.

Hvernig birtist þetta og hvaða afleiðingar hefur þetta? Í fyrsta lagi hefur það gerst og nú er ég að horfa til langs tíma að hlutdeild sjúklinga í rekstri heilbrigðiskerfisins hefur aukist. Hún er núna orðin um 20%, fimmtungur af kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins kemur upp úr vösum sjúklinga. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað í um tvo áratugi og er alvarleg. Öryrkjabandalagið og samtök láglaunafólks á Íslandi hafa varað við því að þessi þróun valdi því þegar að tekjulítið fólk veigri sér við að leita sér lækninga. Þetta er eitt sem gerst hefur.

Hitt er aukið álag á starfsfólkið. Þegar verst lét eftir hrun fækkaði stöðugildum á Landspítalanum á milli 400 og 500. Núna stendur þessi tala í 200 í mínus. Við heyrum að forstjóri Landspítalans sé vegna fjárhagsþrenginga að boða uppsagnir starfsfólks. Það þýðir aukið álag á starfsfólkið og þar á meðal læknana. Allt þetta veldur því að starfsfólkið fer að horfa til fengsælli miða. Hvar er þau að finna? Meðal annars í útlöndum. Læknar koma ekki heim eða leita utan og ef við réttum ekki þeirra kjör þá mun sú þróun halda áfram og brjóta niður íslenska heilbrigðiskerfið. Það mun gerast.

En menn geta leitað annað. Menn geta leitað líka í einkarekstur og þá horfum við til annars sem er að gerast. Um síðustu áramót var samið við sjálfstætt starfandi lækna og kjör þeirra hækkuð um 20%. Þar með er verið að setja þann hvata inn í kerfið að fólk úr almennu stofnununum leiti í einkarekstur, leiti hófanna þar. Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé gert með ráðnum hug.

En niðurstaða er þessi: Ef við réttum ekki af hallann að einhverju leyti gagnvart útlöndum en ekki síst gagnvart einkarekstrinum fáum við hér einkarekið kerfi. Fjárfestar eru þegar byrjaðir að kynna hugmyndir um nýjan spítala. Mega þeir reisa einkasjúkrahús? Guðvelkomið, ef þeir ætla að borga þetta allt sjálfir en það ætla þeir ekki að gera. Þeir ætla að láta okkur skattborgarana gera það (Forseti hringir.) og þá viljum við kerfi sem er réttlátt og hagkvæmt. Það er ekki einkarekið kerfi.