144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Þetta er gríðarlega umfangsmikið og mikilvægt mál sem við þurfum að ræða af kostgæfni, vega og meta allar þær stöður sem uppi eru í þeirri deilu sem hv. þingmaður vakti svo rækilega athygli á, að læknastéttin gengur nú í fyrsta sinn til þess að nýta þann neyðarrétt sem hún á skilyrðislaust og telur sig nauðbeygða að beita, verkfallsvopnið. Það er grafalvarleg staða. Ég hef ítrekað í opinberri umræðu áhyggjur mínar af þeirri stöðu af þeirri ástæðu kannski sérstaklega að við fáum þær ábendingar út úr þessari fagstétt að mestu áhyggjur hennar beinist að því að ekki verði nægilega mikil endurnýjun á þekkingu innan hennar. Það er alvarlegur hlutur og ástæðan er meðal annars sú að það unga fólk sem helgar starfsævi sína þessu námi og þessu starfi sækir námið erlendis og hefur búið við allt önnur kjör í uppvexti sínum hér innan lands og er allt annarrar hugsunar en þeir sérfræðingar sem eru nú á seinni hluta starfsævi sinnar í núverandi heilbrigðisþjónustu okkar. Það unga fólk sem lærir erlendis býr við allt önnur uppeldisskilyrði en það ágæta og frábæra fólk sem við erum að nota í dag.

Þetta er alvarlegt vegna þess að samkeppnin um þetta vinnuafl er mjög mikil og ekki síst frá okkar næstu nágrönnum sem ég hef áður gert grein fyrir hér í ræðustól. Það er alvarlegt þegar sú staða kemur upp að biðlistar vaxa og lengjast. Það þýðir í rauninni ekkert annað en það að við erum að færa fram fyrir okkur í tíma kostnaðinn af því að veita þeim heilbrigðisþjónustu sem á þurfa að halda. Hann kemur yfir okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við erum sammála um afleiðingarnar af verkfallinu að þessu leytinu til.

Ég vil aðeins nefna það sem hv. þingmaður segir um að kjör sérgreinalækna hafi hækkað um 20% við samninginn um síðustu áramót. Þetta er alrangt og stafar örugglega að hluta til af því að við höfum ekki getað skýrt hvað þar var í gangi. Sérgreinalæknar voru samningslausir frá árinu 2010 til ársloka 2013. Þeir bjuggu þá til komugjald sem þeir veltu yfir á sjúklinga til að halda í við kostnaðarhækkun þess tíma. Við samninginn sem gerður var við sérgreinalækna undir lok ársins 2013 var þetta komugjald og þessi kostnaður sjúklinga felldur niður. Hlutdeild sjúklinga í þessum sérgreinalæknakostnaði lækkaði úr því að vera 42% niður í 30%, þ.e. greiðslur sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu lækkuðu um hátt í milljarð við þennan samning. Við höfum ekki getað komið þessu fram. Mér er fullljóst að aðilar vinnumarkaðarins og sjúklingasamtökin hafa orðið vör við þessa breytingu, en hún er ekki rædd. Kannski stafar það af því að við höfum ekki komið þessum staðreyndum nægilega vel á framfæri en svona eru hlutirnir vaxnir.

Það er rangt að halda því fram að þarna sé um það að ræða að kjör þessara stétta hafi hækkað um 20% við þann samning. Þau gætu hafa hækkað um 3–4%. Og þegar maður horfir yfir sérgreinalæknastabbann verðum við líka að hafa í huga þegar við ræðum þann þátt heilbrigðisþjónustunnar að árlega eru um 450 þús. komur til sérgreinalæknanna á Íslandi þannig að gera má ráð fyrir að af þessum komum til heilbrigðisþjónustunnar þjónusti þessi starfsgrein um 1/3.

Það er rétt sem hér hefur líka komið fram að hættan við þá stöðu sem nú er uppi er sú að sérfræðikunnáttan leiti á fengsælli mið sem bjóðast erlendis. Ég er talsmaður þess, hef alltaf verið og mun verða að við eigum að standa vörð um þessa sérþekkingu en til þess verðum við að leita þeirra leiða sem færar eru til að gera kjör þessara (Forseti hringir.) starfsgreina samkeppnishæfari við erlenda markaði.