144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:20]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hefja þessa umræðu.

Sú staðreynd að læknar hafa nú í fyrsta skipti gripið til verkfallsaðgerða til að knýja á um bætt kjör er afleit staða sem enginn vill vera í. En ástandið er ekki nýtilkomið heldur á það sér langan aðdraganda og er afleiðing niðurskurðar undangenginna ára sem m.a. hefur dregið úr eðlilegri endurnýjun í læknastétt. Hæfni íslenskra lækna er mikil og þeir eru eftirsóttir starfskraftar um allan heim. Eins og fram hefur komið er einn stærsti þáttur í alþjóðlegri samkeppnishæfni í starfsumhverfi lækna laun þeirra. Þar höfum við klárlega dregist aftur úr. Fleira kemur til og má þar nefna þætti eins og vinnuálag sem hefur nú í langan tíma verið allt of mikið á þessari stétt sem fleirum. Aðrir þættir eru aðgengi að góðum lyfjum og þátttaka í framþróun læknavísindanna.

Læknar hafa bent á að lyfjaþáttinn má bæta með einföldun á regluverki og vinnulagi við að taka ný lyf í notkun með því að fara í aukið samstarf við erlend lyfjayfirvöld, svo sem í Svíþjóð eða Danmörku, því það er snúið fyrir fámenna þjóð að ákveða hvaða lyf eru notuð og hvaða ekki. Þetta gæti orðið einn liður í eðlilegri framþróun sem nauðsynlegt er að taka þátt í.

Í vor samþykkti Alþingi ályktun um að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð. Það er einn liður í því að bæta starfsumhverfi. Störf heilbrigðisstétta eru samfélagi okkar afar mikilvæg og við treystum á þær daglega. Því er mikilvægt að ná samningum hið fyrsta og taka þar inn í ýmis sjónarhorn. Við megum ekki við því að missa fleira gott fólk úr landi.