144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Verkfall lækna er grafalvarlegt mál og um það eru allir sammála. Það er hins vegar hjákátlegt ef við ætlum að gera það að pólitísku deiluefni sem það er ekki.

Aðdragandi þessa verkfalls er langur og það er ljóst að laun lækna á Íslandi sem hafa hlotið alþjóðlega menntun standast ekki samanburð við það sem gerist annars staðar og því þarf að breyta. En ég ítreka, þetta er ekki eitthvað sem ætti að koma okkur á óvart í dag, þetta er löngu vitað.

Í þessari umræðu hefur verið rætt um kerfislega breytingu vegna verkfallsins og gert að því skóna að hún verði sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni fara út í einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Ég ítreka það sem oft hefur komið fram og stendur í ályktunum Sjálfstæðisflokksins til margra ára: Heilbrigðiskerfið skal fjármagnað af skattfé. Um það hefur enginn deilt og allir flokkar eru sammála.

Það sem greinir okkur kannski frá öðrum er að við teljum að fleiri geti komið að rekstri en ríkið sjálft en það heitir ekki einkavæðing. Og því fyrr sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir greinarmun á þessu tvennu, því betra. Kerfislegar afleiðingar þessa verkfalls geta orðið þær að læknar fari úr landi. Stærsta verkefni okkar og það er sameiginlegt verkefni þessarar stofnunar hér, Alþingis, er að setja heilbrigðisáætlun í þá veru að við sem eigum heima í þessu landi getum notið þeirrar þjónustu og bestu þjónustu sem völ er á því (Forseti hringir.) okkar heilbrigðisstarfsfólk er ekki síður menntað en aðrar heilbrigðisstéttir í öðrum löndum. Á því skulum við byggja framtíðina.