144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:31]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ef allir eru sammála í pólitíkinni, um hvað snýst þá málið? Ég bara spyr í einfeldni minni. Hvað er málið? Af hverju er ekki hægt að gera kjör lækna sambærileg við það sem er annars staðar á Norðurlöndum eða í nágrannalöndum okkar til þess að við missum þá ekki frá okkur og heilbrigðiskerfið fari í leiðinni í vaskinn?

Á hverju strandar? Jú, peningum. Það eru alveg til peningar. Fyrst við erum svona sammála skulum við öll forgangsraða í þetta, ég er til. Hvað þarf til að einhver skriður komist á þetta mál? Þarf að hætta við 700 aðgerðir á Landspítalanum? Fyrirgefðu, herra forseti, þarf einhver hreinlega að deyja?

Samninganefnd ríkisins starfar eftir ramma sem fjármálaráðuneytið, hæstv. fjármálaráðherra og væntanlega aðrir ráðherrar í ríkisstjórn sníða. Þetta mál er því stjórnvalda, þetta er inni á þeirra borði og við erum að biðla til þeirra. Það er gott að heyra að ráðherra vill gera kjörin samkeppnishæfari og ég fagna því að heyra það í þessum ræðustól, en hvernig ætlar hann að gera það? Við skulum öll styðja hann í því. Það er bara ein leið, það þarf að bjóða betri kjör, það liggur í hlutarins eðli.