144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Ég vakti athygli á því í máli mínu hvaða hætta skapaðist ef sá hvati yrði byggður í kerfið að læknar leituðu úr almannaþjónustunni yfir í einkarekinn praxís.

Það er ekki ágreiningur um það á Íslandi, hygg ég, að hér eigi og geti verið sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar kostaðir af ríkinu. Spurningin er um blönduna, um hlutfallið. Sú blanda er að breytast. Það er aukin sókn í einkapraxísinn. Við sjáum fjárfesta íhuga að fjárfesta jafnvel í sjúkrahúsum kostuðum af ríkinu með þeirra ávinningi.

Það er alveg sama hvað hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins kveður fast að orði hér, um þetta hefur verið pólitískur ágreiningur. Ég minnist þess að þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fagnaði því að losna við Framsókn úr ríkisstjórn 2007 vegna þess að Framsókn var að bila í einkavæðingunni sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi halda með heilbrigðiskerfið inn á. Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar talaði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir því að færa verk í auknum mæli út af sjúkrahúsunum í einkarekstur. Ég get vísað í dæmi um þetta ef því er að skipta. Það hefur verið pólitískur ágreiningur um þetta efni. Og það eru alltaf gerendur. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Það eru gerendur. Við höfum mörg komið þar að málum og eigum mörg að axla ábyrgð.

Við tölum um samkeppnishæfni, að við séum samkeppnishæf við aðrar Norðurlandaþjóðir. Við þurfum að horfa líka til manneskjulegs umhverfis. Við viljum ekki að læknar þurfi að leita til Noregs til tekjuöflunar eða fara út á land til að ná í tekjur. Það á að búa kjörin úti á landi þannig að þeir geti verið þar og vilji vera þar. Það er ekkert óeðlilegt við það að læknar sýni launaseðla sína fyrir (Forseti hringir.) dagvinnu, það er fullkomlega eðlilegt.

Ég skora á lækna og ríkisstjórn að ná samningum hið allra fyrsta. Ég hef fært rök fyrir því (Forseti hringir.) hvers vegna ábyrgðin hvílir fremur hjá ríkisstjórninni og okkur sem höldum og höfum haldið um fjárveitingavaldið á Íslandi (Forseti hringir.) til að leysa þessa deilu. Ég held að þjóðin vilji það.