144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og loks lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar af ólíkum toga á ýmsum skatta- og tollalögum sem flestar varða framkvæmdaratriði og leiða til samræmingar, einföldunar og skýringar á ákveðnum atriðum enda nær eingöngu um að ræða leiðréttingar og breytingar í samræmingarátt á ákvæðum einstakra laga. Er mikilvægt að fram komi að reiknað er með nokkrum ávinningi af samþykkt frumvarpsins í því formi að reglur verði skýrari og gagnsærri sem er til hagsbóta fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki auk þess að auðvelda stjórnsýsluna hjá skatt- og tollyfirvöldum.

Mun ég nú fjalla um hverja þessara breytinga fyrir sig:

Fyrst ber að nefna brottfellingu skyldu lögaðila til að afhenda ríkisskattstjóra sameignarfélagssamning með skattframtali. Lagt er til að felld verði brott skylda lögaðila til að afhenda slíkan samning með skattframtalinu enda eru frumgögn vegna skráningar félaga þegar til staðar hjá embætti ríkisskattstjóra.

Í annan stað er lögð til sú nauðsynlega breyting að fella tilvísun til 8. gr. tekjuskattslaga, er fjallar um vexti, afföll og gengishagnað, brott úr 16. gr. laganna. Í meðförum Alþingis á frumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2013 var fallið frá þeirri tillögu frumvarpsins að láta sérreglur gilda um skattlagningu vaxtaskiptasamninga. Umrædd tilvísun er því markleysa þar sem sömu reglur gilda um skattlagningu afleiðuviðskipta óháð undirliggjandi eignum.

Þá er einnig lögð til sú breyting til að gæta samræmis við afdrátt staðgreiðslu af söluhagnaði aðila með takmarkaða skattskyldu vegna sölu verðbréfa, þannig að söluhagnaður af hlutabréfum og afleiðum sæti hvoru tveggja afdrætti staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þetta er breyting til að gæta samræmis við afdrátt staðgreiðslu af söluhagnaði aðila með takmarkaða skattskyldu. Þar að auki er lagt til að tekin verði upp í staðgreiðslulögum tilvísun tekjuskattslaga þar sem fram kemur að með orðunum „hér á landi“ sé átt við landið sjálft, landhelgina, efnahagslögsöguna og landgrunnið, sem og svæði þar sem Ísland hefur rétt til skattlagningar lögum samkvæmt eða samkvæmt sérstökum samningi við erlent ríki.

Í þriðja lagi er með frumvarpi þessu lagt til að beinar tilvísanir til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu verði felldar brott enda ekki nauðsynlegt að vísa með beinum hætti til þeirra í lagagreininni sjálfri. Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu verða eftir sem áður mikilvæg heimild við beitingu milliverðlagningarreglna á Íslandi rétt eins og í öðrum ríkjum OECD enda eru íslensku reglurnar byggðar á þeim grundvallarreglum sem þar koma fram. Hér eru því ekki lagðar til neinar efnislegar breytingar á núgildandi reglum um milliverðlagningu sem er að finna í tekjuskattslögum.

Í fjórða lagi er í milliverðlagningarreglum tekjuskattslaga fjallað um verðlagningu í viðskiptum milli tengdra lögaðila. Eru þeir lögaðilar sem geta talist tengdir skilgreindir í ákvæðum tekjuskattslaga. Lagt er til að málsliður, þar sem fjallað er um lögaðila sem teljast tengdir vegna eignarhalds eða stjórnunarlegra yfirráða einstaklinga sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar, verði felldur brott.

Ástæða þessa er einkum sú að erfitt getur verið að skilgreina hvenær lögaðilar teljast tengdir samkvæmt ákvæðinu. Þar sem tengsl lögaðila samkvæmt milliverðlagningarreglum tekjuskattslaga geta undir ákveðnum kringumstæðum leitt til þess að lögaðilar verði skjölunarskyldir, er mjög mikilvægt að engin óvissa sé um það hvenær aðilar teljist tengdir í skilningi laganna. Þrátt fyrir brottfall ákvæðisins þarf verðlagning í viðskiptum aðila, sem hefðu getað fallið undir ákvæðið, engu að síður ávallt að vera í samræmi við armslengdarsjónarmið, samkvæmt almennum reglum tekjuskattslaga.

Þá er í fimmta lagi, til samræmingar, lögð til hækkun á tekjuskattshlutfalli manna með takmarkaða skattskyldu úr 18% í 20%, í samræmi við áður lögfestar hækkanir á tekjuskattsprósentum manna og lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 70. gr. laga nr. 142 sem samþykkt voru í desember 2013. Hér er meðal annars um að ræða þóknanir, stjórnarlaun og tekjur listamanna.

Í frumvarpinu er í sjötta lagi lagt til að kveðið verði skýrt á um það að rekstur vatnsveitna og/eða fráveitna, sem undanþeginn var tekjuskatti með lögum nr. 142/2013, sé ekki undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Flestir aðilar sem undanþegnir eru greiðslu tekjuskatts greiða fjármagnstekjuskatt og þykja ekki standa rök til þess að undanþiggja rekstur vatnsveitna og fráveitna sérstaklega frá greiðslu skatts af fjármagnstekjum.

Á vorþingi 2014 samþykkti Alþingi frumvarp innanríkisráðherra til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem lög. Hér er komið að sjöunda atriðinu í frumvarpinu. Samkvæmt lögunum sem vísað var til er sýslumannsembættum fækkað úr 24 í níu. Með fækkuninni verður eitt sýslumannsembætti á höfuðborgarsvæðinu. Í frumvarpinu er því í sjöunda lagi lögð til orðalagsbreyting í samræmi við fækkun sýslumannsembættanna og mun tollstjóri annast innheimtu opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu verði frumvarpið að lögum. Rétt er að nefna að fjármála- og efnahagsráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð hvaða sýslumenn innheimta skatta í tilteknu umdæmi eða umdæmum.

Í áttunda lagi er lagt til að ákvæði tekjuskattslaga, sem kveður á um að eindagi tekjuskatts af öðrum tekjum en launatekjum sé 30 dögum eftir gjalddaga, verði breytt á þann veg að eindaginn verði síðasti virki dagur mánaðarins eftir gjalddaga. Er þetta gert til að fullt samræmi verði milli mánaða almanaksársins sem og milli ákvæða tekjuskattslaga um gjalddaga og vexti. Til margra ára hefur það verið framkvæmdin að eindagi þing- og sveitarsjóðsgjalda sé síðasti virki dagur mánaðarins eins og reyndar dráttarvaxtaákvæði tekjuskattslaga ber með sér.

Í ákvæði tekjuskattslaga um gjalddaga er sérákvæði um skattbreytingu til hækkunar þar sem gjalddaginn er 10 dögum eftir að gjaldanda hefur verið tilkynnt um hækkunina. Ákvæðið vísar til annars ákvæðis varðandi eindagann og er lagt til að við það verði bætt nýjum málslið er kveður á um það að eindagi samkvæmt málsgreininni sé mánuði eftir gjalddaga.

Þá er í níunda lagi lagt til að ákvæði til bráðabirgða XLIV í lögum um tekjuskatt, er varðar skattalega meðferð á eftirgjöf skulda rekstraraðila, verði framlengt út árið 2014 til samræmis við framlengingu á ákvæðum til bráðabirgða XXXVI og XXXVII er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga utan atvinnurekstrar annars vegar og rekstraraðila hins vegar.

Í tíunda lagi er lagt til að rafeyrisfyrirtæki verði skattskyldir aðilar samkvæmt lögum um fjársýsluskatt. Samkvæmt þeim lögum eru fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki skattskyldir aðilar þegar þau í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Rafeyrisfyrirtæki voru skilgreind sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og voru því skattskyldir aðilar samkvæmt lögum um fjársýsluskatt. Ný lög um útgáfu og meðferð rafeyris, rafeyrislög, tóku gildi 1. apríl 2013. Í greinargerð með rafeyrislögum kemur fram að lagt er til að rafeyrisfyrirtæki verði sérstök tegund fjármálastofnana en ekki ein tegund fjármálafyrirtækja eins og verið hefur. Eftir gildistöku rafeyrislaga falla rafeyrisfyrirtæki ekki með skýrum hætti undir ákvæði laga um fjársýsluskatt. Slík fyrirtæki inna þó enn af hendi vinnu eða þjónustu sem talin hefur verið undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt.

Í ljósi þeirrar breytingar sem gerð hefur verið á stöðu rafeyrisfyrirtækja með rafeyrislögum er hér lagt til að ákvæði laga um fjársýsluskatt verði breytt í þá veru að rafeyrisfyrirtæki verði með afdráttarlausum hætti felld undir ákvæði laganna um skattskylda aðila. Við gildistöku laga um fjársýsluskatt var við það miðað að rafeyrisfyrirtæki yrðu skattskyld og ný lög um þá starfsemi þykja ekki hafa breytt neinu um þær forsendur.

Samkvæmt frumvarpinu er í ellefta lagi gert ráð fyrir því að við upptalningu í undanþáguákvæði 7. gr. tollalaga verði bætt tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er hingað til lands í kjölfar viðbragðsaðgerða vegna mengunarslysa og náttúruhamfara. Tilefni þessarar breytingartillögu er samningur norðurskautsríkjanna um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á norðurslóðum sem undirritaður var í Kiruna í Svíþjóð í maí 2013. Norðurskautsríkin eru Ísland, Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð.

Í tólfta lagi er lögð til breyting á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að tryggja að gætt sé að ákvæðum stjórnsýslulaga með fullnægjandi hætti varðandi umboð og þekkingu tollmiðlara samkvæmt XI. kafla laganna. Lögfest verður heimild tollstjóra til að birta tollmiðlara ákvarðanir og leiðbeiningar vegna umbjóðenda hans, samanber ákvæði stjórnsýslulaga. Tollmiðlari skal upplýsa lögaðila og einstaklinga, sem stunda inn- eða útflutning, um ákvarðanir og leiðbeiningar tollstjóra, þar með taldar kæruleiðbeiningar.

Þá er gert ráð fyrir því að eitt af skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar verði þekking á viðeigandi málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Í þrettánda lagi er lagt til með frumvarpinu að tekinn verði af allur vafi varðandi kæruleiðir þegar tollafgreiðsla er stöðvuð á grundvelli ákvæða tollalaga og lögfest að sú athöfn að stöðva tollafgreiðslu sé kæranleg til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, samanber ákvæði stjórnsýslulaga, en ákvörðun um að vara sé leyfisskyld sé kæranleg til þeirrar stofnunar sem tók ákvörðun um leyfisskylduna og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar.

Orðalag laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. hefur valdið embætti tollstjóra, sem fer með framkvæmd laganna, vissum vandræðum. Með breytingu ákvæðisins er í fjórtánda lagi tekinn af allur vafi um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Með tækniþróun á sviði hjálpartækja á undanförnum árum standa fötluðum einstaklingum nú til boða ýmis önnur hjálpartæki en hjólastólalyftur. Þessi hjálpartæki eru til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði. Hjálpartæki þessi kalla á umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á bifreiðum rétt eins og þegar hjólastólalyftu er komið fyrir. Af þeim sökum þykir rétt að bifreiðar sem breytt hefur verið með þessum hætti verði einnig undanþegnar vörugjöldum.

Þá er í fimmtánda lagi tekinn af allur vafi um að fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbílar og beltabifreiðar, þar með taldir vélsleðar, beri 30% vörugjald samkvæmt ákvæðum laganna. Lagt er til að ökutæki þessi verði nú talin upp í ákvæðinu þar sem rétt þykir að kveða skýrt á um það.

Sextánda og síðasta breytingin varðar lög um búnaðargjald. Samkvæmt ákvæðum laga um búnaðargjald skal bæta við 2,5% álagi þegar um mismun er að ræða sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu. Í frumvarpinu er að lokum lagt til að í stað álagsbeitingar skuli í slíkum tilvikum reikna inneignarvexti jafn háa vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu í samræmi við ákvæði tekjuskatts- og tollalaga.

Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa ekki bein fjárhagsleg áhrif á afkomu ríkissjóðs enda nær eingöngu um að ræða leiðréttingar og breytingar í samræmingarátt á ákvæðum einstakra laga. En eins og ég sagði hér í upphafi ræðu minnar er gert ráð fyrir nokkrum ávinningi af samþykkt frumvarpsins í því formi að reglur verði skýrari og gagnsærri sem er til hagsbóta fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki auk þess að auðvelda stjórnsýsluna hjá skatt- og tollyfirvöldum.

Hér að lokum, virðulegi forseti, er sjálfsagt að geta þess að öll meginatriði þessa frumvarps komu fram á síðasta þingi en málið dagaði þá uppi undir lok þingstarfa síðastliðið vor. Það eru þó örfáar viðbætur í málinu sem ættu að skýra sig sjálfar.

Ég legg til, að þessu sögðu, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.