144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[11:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki með neinni vissu fullyrt nákvæmlega um það hvar leitað hefur verið umsagna eða hvaða einstök atriði hafa verið borin undir ríkisskattstjóra, en í heild sinni er frumvarpið á vissan hátt uppsóp eða samtíningur af fjöldamörgum atriðum sem komið hafa fram í skattframkvæmd á undanförnum árum. Það sést á því að þetta eru breytingar sem eru margar hverjar alveg óskyldar innbyrðis en hver um sig er þó til þess fallin að mati ráðuneytisins að auðvelda skattframkvæmd og einfalda skattareglur.

Varðandi milliverðlagninguna hygg ég að það hljóti að hafa komið fram í skattalegri framkvæmd að erfitt gæti reynst að útkljá álitamál sem varða eftirfarandi skilgreiningu sem taka mun breytingum: Hvenær eru aðilar tengdir vegna eignarhalds eða stjórnunarlegra yfirráða sem einstaklingar sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar? Þetta er skilgreining í lögunum sem valdið hefur ákveðnum vandræðum í framkvæmd og þar sem skjölunarskylda fylgir því að falla undir skilgreininguna er komist að þeirri niðurstöðu að það sé hreinlegra og sanngjarnara og til einföldunar að fella brott þessa tilteknu skilgreiningu. Þetta er einn liður af mörgum í viðkomandi lagagrein sem fellur brott.