144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[12:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp er að uppistöðu til, eða sennilega alfarið, einhvers konar lagahreinsun eða tiltekt í lagasafninu og ég dreg ekki í efa að þörf sé á því. Í einhverjum tilvikum er verið að bregðast hér með eðlilegum hætti í skattamálum við nýjum aðstæðum og svo eru í sumum tilvikum framlengdar tilteknar bráðabirgðaráðstafanir, svo sem eins og með skattalega meðferð skuldaeftirgjafar o.s.frv.

Það vaknar auðvitað sú spurning hvort ráðuneytið hafi haft það til skoðunar sem möguleika í þessum efnum að leggja hreinlega fram ný heildarlög um tekjuskatt. Maður veltir því fyrir sér hvort það fari ekki að verða tímabært, ekki endilega vegna þess að í því yrðu fólgnar miklar efnisbreytingar heldur einfaldlega að lögin yrðu sett upp upp á nýtt. Ef ég man rétt eru eitthvað um 35 bráðabirgðaákvæði aftan við lög um tekjuskatt og eignarskatt og trúlega væri orðið handhægt að ýmsu leyti upp á að vinna með þau lög að þau yrðu sett fram á nýjan leik sem ný heildarlög eða nýtt heildarfrumvarp.

Ég staldra sömuleiðis, eins og síðasti ræðumaður, aðeins við breytingarnar sem lagðar eru til hér á skilgreiningu á tengdum aðilum. Þingnefnd lagði í þetta dálitla vinnu og það sem er athyglisvert er að menn bera við vandkvæðum í framkvæmd en segja engu að síður að í þeim tilvikum sem viðskipti eiga sér stað milli aðila sem hefðu getað fallið undir ákvæðið eigi armslengdarsjónarmið alltaf að ríkja. Upp að vissu marki er því áfram eins og til standi að hafa skilgreininguna á tengslum að þessu leyti inni vegna þess að þá þurfi að ríkja (Forseti hringir.) armslengdarsjónarmið, en það fellur út úr lögunum. Og þá er spurningin: Er þá í reynd eingöngu verið að létta af skjölunarskyldunni með þessari breytingu?