144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

byggingarvörur.

54. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um byggingarvörur. Kannski ég byrji á því áður en ég flyt álitið að nefna að það er ekki rétt í því áliti sem er útprentað að það sé meiri hluti á þessu áliti. Það er enginn meiri hluti því að nefndin var einhljóða í afstöðu sinni til frumvarpsins.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Skipulagsstofnunar, Mannvirkjastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Umsagnir bárust einnig frá þessum aðilum.

Tilgangur þessa frumvarps er innleiðing og framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins (ESB) nr. 305/2011 um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara sem samþykkt var af Evrópusambandinu 9. mars 2011. Reglugerðinni er ætlað að koma í stað tilskipunar ráðsins um sama efni, en áður hafði tilskipunin verið innleidd með reglugerð um viðskipti með byggingarvörur nr. 431/1994. Frumvarpinu er að auki ætlað að leysa af hólmi VIII. kafla laga nr. 160/2010, um mannvirki, en einnig eru gerðar breytingar á lögum nr. 75/2000, um brunavarnir.

Frumvarpið um byggingarvörur var fyrst lagt fram á 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það var aftur lagt fram á 143. þingi og hlaut þá afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar sem lagði til breytingar á því í áliti sínu. Ég mun, virðulegi forseti, fara aðeins yfir nefndarálitið frá síðasta þingi og nefna stuttlega hverjar þessar breytingar voru.

Meiri hluti nefndarinnar vísar til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti nefndarinnar frá síðasta þingi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ekki er víst að tilnefnd verði tæknimatsstofnun hér á landi, samanber 5. og 6. gr. frumvarpsins, fyrst um sinn en í ákvæðunum er fjallað um tilnefningu tæknimatsstofnunar, tilkynningaryfirvald og tilkynnta aðila. Nýsköpunarmiðstöð Íslands var sá aðili sem framkvæmdi tæknimat hér á landi en það hefur ekki verið framkvæmt síðan 1994. Til að framkvæma tæknimat þarf sú stofnun sem það gerir að vera aðili að samtökum tæknimatsstofnana og sækja fundi þeirra reglulega. Fyrir nefndinni kom fram að nokkuð kostnaðarsamt væri að vera aðili að þeim samtökum og þar sem umsóknir um tæknimat hafa ekki borist í fjölda ára er Nýsköpunarmiðstöð Íslands ekki lengur aðili að samtökunum. Þá er ekki til staðar tilnefndur aðili hér á landi sem hefur faggildingu til að framkvæma mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika, samkvæmt VII. kafla reglugerðar (ESB) nr. 305/2011. Af því leiðir að þeir innlendu aðilar sem hyggjast fá vörur sínar vottaðar og CE-merktar þurfa að leita til prófunaraðila erlendis, sem kann að leiða af sér meiri kostnað en ef hægt væri að leita til innlendra aðila. Meiri hlutinn bendir þó á að ekki er skylda að tilnefna tæknimatsstofnun og þær sem eru tilnefndar annast tæknimat án tillits til landamæra.

Þrátt fyrir framangreint er það mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að frumvarpið verði gert að lögum svo innleiða megi reglugerð (ESB) nr. 305/2011 með fullnægjandi hætti en reglugerðin er grunnreglugerð á þessu sviði, sem þýðir að það er mikill þrýstingur að utan og reyndar innan lands líka að þetta verði innleitt.

Nefndin þakkar umhverfis- og auðlindaráðuneyti fyrir að hafa tekið til skoðunar það sem hún benti á á síðasta þingi, m.a. að kröfur um leiðbeiningar og upplýsingar væru á íslensku. Ég ætla að lesa hérna upp, með leyfi forseta:

„Yfirlýsing um nothæfi byggingarvöru skal lögð fram á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku.“

Annað sem stendur hérna, með leyfi forseta:

„Þegar byggingarvara er boðin fram á markaði skulu framleiðendur, innflytjendur og dreifendur sjá til þess að vörunni fylgi leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi á íslensku eða ensku. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð að ákveða að leiðbeiningar um notkun eða upplýsingar um öryggi byggingarvöru fyrir tilteknar vörur eða vöruflokka skuli vera á íslensku, með hliðsjón af notkunarsviði vörunnar og mikilvægi hennar með tilliti til grunnkrafna, samanber 3. mgr. 4. gr.“

Nefndin telur að textinn eigi að meginreglu til að vera á íslensku og hann megi síðan birta á öðru tungumáli. Þetta var helsta breytingin sem nefndin fjallaði um á síðasta þingi.

Einnig hefur verið rætt í nefndinni um svokallaða ábyrgð einstaklinga sem láta byggja fyrir sig. Sá sem hér stendur gerir athugasemdir við það að fólk sem lætur framkvæma fyrir sig, byggja eða annað, taki fulla ábyrgð á því að mannvirkin standist allar þær kröfur sem til er ætlast. Hefur þingmaðurinn það fyrir sér að ágreiningur hefur komið upp í byggingariðnaði þar sem ekki virðist vera alveg skýr ábyrgðarskipting á milli aðila, þ.e. arkitekta, þeirra sem eru tæknimenntaðir, þeirra sem hanna hús og síðan þeirra sem sjá um að byggja það. Mér er hins vegar sagt að þessi verkaskipting sé í lagi en ég áskil mér þó rétt til að skoða þetta milli umræðna og bæta um betur ef það er hægt.

Undir nefndarálitið skrifa allir í nefndinni: Sá sem hér stendur er framsögumaður, Höskuldur Þórhallsson formaður, Katrín Júlíusdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Róbert Marshall og Vilhjálmur Árnason. Birgir Ármannsson og Elín Hirst voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.