144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og get verið honum algjörlega sammála um að rannsóknir á þeim svæðum sem er verið að nýta í innfjörðum og stórum fjörðum kringum landið eru ekki nægar. Fjórðungssamband Vestfjarða fór út í að rannsaka Arnarfjörðinn og hefur lagt fram mjög mikið og metnaðarfullt plagg sem er haf- og strandsvæðaskipulag fyrir þann fjörð. Óskað hefur verið eftir að fá að gera slíkt hið sama fyrir Ísafjarðardjúp. Ríkisvaldið hefur því miður ekki fengið nægt fjármagn eða lagt nægt fjármagn til Umhverfisstofnunar til þess að hægt sé að vinna heildstætt að þessum málum. Ég vona að sú vinna sem Fjórðungssambandið hefur skilað af sér varðandi mat á nýtingu Arnarfjarðar á burðarþoli verði nýtt í heildarmati kringum allt landið. Ég hef þær upplýsingar að meira fjármagn vanti í þessar rannsóknir. Mér finnst það mjög brýnt verkefni núna þegar uppgangur í þessa grein er svona mikill að menn gangi í takt og að samhliða liggi fyrir hvernig við viljum nýta svæðið í kringum landið, það liggi skýrt fyrir á hvers höndum skipulagið er, ábyrgðin og veiting leyfa og að þetta fari allt saman.

Ég tek því undir það að við vöndum vel til verka og gerum ráð fyrir fjármunum til þessa og að þetta sé samfella, en menn fari ekki fram úr sér vegna þess að það getur valdið því, þetta er mjög viðkvæm grein, að við gerum einhver mistök sem við ráðum ekki við að bæta.