144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:44]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið hingað til umræðu um leið og ég ítreka það hversu leiðinleg þau mistök voru — ég flokka það undir mistök — að klára málið ekki á síðasta þingi.

Ég fagna því að þær breytingartillögur sem umhverfis- og samgöngunefnd lagði til séu komnar inn í frumvarpið. Vil ég þá helst nefna breytingar á kostnaðarþátttöku ríkisins í framkvæmdum. Þó að ég hefði viljað ganga aðeins lengra í flokkun á höfnum. Höfnum er skipt í fimm flokka og í minnsta flokknum eru tekjur þeirra undir 40 millj. kr. Viðbótarframlagið getur orðið 15% til viðbótar við þessi 75% sem gera þá 90%. Ég hefði viljað sjá töluna hærri, þ.e. að þetta tæki til heldur stærri hafna en þeirra sem eru með 40 milljónir í aflaverðmæti.

Víða er löngu kominn tími á viðhald á stálþiljum í höfnum. Í þeim höfnum sem aðallega byggja tekjur sínar á aflagjaldi, eða fiskihöfnum eins og við köllum þær, standa tekjurnar engan veginn undir eðlilegu viðhaldi. Þær hafnir sem hafa útflutninginn líka og eru miklar útskipunarhafnir hafa hins vegar óþarflega miklar tekjur. Ég hefði viljað sjá meiri jöfnuð. Það er þó búið að hækka þennan flokk upp í 75% þátttöku ríkisins að hámarki. Ég hefði viljað sjá hann í 90% eins og aðilar frá hafnasamlaginu í nefndinni, sem vann grunnvinnuna að frumvarpinu, lögðu til. Í lögunum segir „allt að 75%“ og þótt leyfilegt sé að styrkja hafnir upp að 90% þá er það ekki sjálfgefið. Að öðru leyti er ég sáttur við þetta.

Verðlagning á fiski frá fiskeldisfyrirtækjum, sem landað hefur verið, hefur aðeins komið til tals hérna í fyrri ræðum og er ágætislending að helmingur reiknist af heildsöluverðmæti aflans á sama grundvelli og reiknað er af afla frystiskipa. Um verðlagningu og aflagjöld sem miðuð eru við aflaverðmæti má alveg deila, þ.e. hvort rétt sé að miða við það eða hvort miða eigi við magntölur. Það má segja að það sé alveg sama þjónustan og sama álag á mannvirkjum hvort sem verið er að landa þorski eða keilu þótt kannski sé tvisvar eða þrisvar sinnum meiri munur á verðmæti.

Þarna stendur, eins og nefndin bendir á, að samkvæmt 5. mgr. 7. gr. hafnalaga sé höfnum heimilt að gera langtímasamning við notendur hafnarmannvirkja um aflagjald, m.a. vegna afnota af bryggjum, með endurskoðunarákvæðum ef forsendur breytast. Á þann hátt geta aðilar samið um greiðslu gjalda fyrir afnot af hafnarmannvirkjum á þann hátt sem tekur betur mið af þeirri starfsemi sem stunduð er. Ég tel að þetta sé aðeins í áttina og þarna sé opnaður möguleiki til að semja sérstaklega við fiskeldisfyrirtæki þegar málin skýrast betur.

Ég fagna þessu frumvarpi og vona að það fái sem fyrst meðferð.