144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:55]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller þessa góðu umræðu. Ég hef reynt að beita mér eftir því sem ég hef best getað og hef beitt mínu afli, það er bara ekki meira í þessum hópi. Ég er einn af 63 og ef ég mætti ráða þessu einn þá væru þetta 90%. En eins og hv. þm. Kristján L. Möller, sem er reyndur þingmaður, veit þá endar þetta oft í málamiðlunum. Ég sætti mig við að þetta er þó betra en ekki neitt. Þetta er betra en 60% og þetta er meira en ekki neitt því að það er búið að vera núll, þetta er áfangasigur ef svo má segja.

Seinni spurningin og þá kannski líka í framhaldi af næstu spurningu; þetta er háð fjárlögum og ég væri alveg til í að koma með breytingartillögu. En það er bara með ríkissjóð eins og með veskið okkar, eins og með okkar eigin matarreikning, að við þurfum að eiga fyrir hlutunum. Mér sýnist ástandið á ríkissjóði ekki vera þannig í dag að við getum tekið þetta í einu skrefi. Það er svo margt sem kallar.

Þó að ég sé búinn að eyða mestum hluta af mínu lífi niðri á bryggju þá byggist þjóðfélagið á fleiri þáttum. Ég veit að hv. þingmaður er til dæmis mikill áhugamaður um að Landspítali rísi og ég styð hann heils hugar í því, um það erum við öll sammála. Þetta er bara áfangasigur en þegar við erum búin að byggja Landspítalann hef ég trú á að við förum með þetta upp í 90%.