144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda mjög áhugaverðar spurningar, nokkuð margar sem erfitt verður að svara á fimm mínútum en við munum gera okkar besta.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir á sérstökum fundi sem Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, boðaði til um loftslagsmál, að Ísland stefndi að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Ísland býr við þá sérstöðu meðal ríkja heims að hér fer nær öll orkuframleiðsla vegna rafmagns og hitunar fram með endurnýjanlegum orkulindum. Leiðin að því markmiði er fyrst og fremst að fasa út notkun jarðolíu í samgöngum og fiskveiðum. Sú yfirlýsing vakti nokkra athygli bæði innan og utan landsteinanna.

Það er mikilvægt að setja slíka sýn fram og hún hvetur okkur til dáða. Ísland á eins og önnur ríki að leggja fram markmið sín fyrir árið 2030, á Parísarfundinum í desember 2015 en þá er vonast til að hægt verði að ganga frá nýju hnattrænu samkomulagi í loftslagsmálum. Við ætlum að skoða vel hvaða markmið hægt er að setja þar fram sem séu metnaðarfull og raunhæf í senn. Forsætisráðherra gaf tóninn í ræðu sinni í New York og við munum vinna að því að fylgja því eftir.

Varðandi það hvort við fylgjum stefnu Evrópusambandsins eða göngum lengra þá felst smámisskilningur í þeirri spurningu. Ísland fylgir ekki stefnu Evrópusambandsins. Ísland fylgir ekki stefnu Evrópusambandsins í loftslagsmálum heldur hefur það sjálfstæða stefnu og sjálfstæða rödd á vettvangi loftslagssamningsins en Evrópusambandið talar fyrir munn aðildarríkja sinna. Ísland hefur hins vegar nána samvinnu við ESB í þessum málaflokki sem helgast af því að Ísland tekur að miklu leyti upp Evrópureglur í loftslagsmálum í gegnum EES-samninginn. Nær helmingur af losun Íslands fellur undir viðskiptakerfi ESB samkvæmt skyldum okkar innan EES. Vegna þessa var samið um að Ísland yrði með í sameiginlegu markmiði innan Kyoto-bókunarinnar til 2020 með ríkjum ESB. Það fyrirkomulag tryggir að ekki verði um tvöfalt kerfi skuldbindinga að ræða fyrir íslensk fyrirtæki, eitt innan Kyoto og annað innan viðskiptakerfis ESB. Ég tel það vera skynsamlegt fyrirkomulag og við höfum átt ágætt samkomulag um þetta tiltekna viðfangsefni.

Við munum væntanlega ganga fljótlega frá samningi við Evrópusambandið um nákvæma tilhögun þessa fyrirkomulags en þar er m.a. gert ráð fyrir að Ísland geti talið fram kolefnisbindingu gagnvart Kyoto, sem ESB hyggst ekki gera. Óljóst er hvað verður um bókunina eftir 2020 en ESB hyggst halda áfram viðskiptakerfi sínu varðandi losunarheimildir. Það er því mikilvægt að halda áfram samráði og samvinnu við Evrópusambandið á því sviði.

Á Ísland að ganga lengra? Ég tel að að mörgu leyti hafi Ísland nú þegar gengið talsvert lengra í loftslagsmálum, ekki síst í notkun endurnýjanlegrar orku þar sem Ísland stendur langfremst og hefur þegar uppfyllt allar kröfur sem hægt er að gera til okkar innan þess regluverks. Loftslagsstefna okkar mun því miðast við aðstæður okkar og möguleika okkar sem eru að miklu leyti frábrugðnir því sem er í Evrópusambandsríkjunum og hjá flestum þróuðum ríkjum. Við munum setja fram okkar eigin markmið um mótun eigin stefnu, en við munum vissulega eiga nauðsynlegt samráð við Evrópusambandið og aðra um þessi mál.

Þess má geta að Christiana Figueres, framkvæmdastýra loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem var stödd hér á landi í tengslum við Arctic Circle-ráðstefnuna, nefndi að sér þætti mikið til þess koma hvernig Ísland nálgaðist loftslagsmál og að við værum fyrirmynd þjóða í þeim efnum.

Varðandi olíuna þá voru leyfin á Drekasvæðinu gefin út í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég óttast að afturköllun slíkra leyfa mundi draga mjög úr trúverðugleika Íslands, ekki bara á sviði olíuleitar og vinnslu, heldur almennt. Ég tel hins vegar rétt að skoða t.d. hvort við gætum tryggt að hluti af tekjum af olíuvinnslu færi í að styrkja enn frekar það góða starf sem íslenskir aðilar vinna nú við útbreiðslu jarðhitatækni og annarra loftslagsvænna lausna.

Nefna má að Norðmenn, sem þykja hafa sett mjög metnaðarfull markmið í loftslagsmálum en eru talsverð olíuvinnsluþjóð, fjármagna raunar aðgerðir heima fyrir og í þróunarríkjunum með hluta af tekjum af olíuvinnslu.

Varðandi súrnun sjávar þá tek ég undir það að það er alvarlegt áhyggjuefni. Rannsóknir hafa verið í gangi og niðurstöður þeirra eru áhyggjuefni, einkum ef horft er áratugi fram í tímann. Ferlið er það sama hér og annars staðar og áhrifin eru sams konar þannig að allar rannsóknir nýtast okkur við að meta þá ógn. En vegna mikilvægis lífríkis okkar, hafsins, fyrir efnahag okkar og velferð skiptir miklu að við búum að góðri þekkingu og að áreiðanlegt mat sé til á hugsanlegum áhrifum súrnunar sjávar á lífríki við Íslandsstrendur. Það þarf að skoða betur og mun ég beita mér fyrir að það verði gert. Nú er lag hvað þetta varðar því að í lokaskýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna eru einar þær bestu rýndu upplýsingar sem komið hafa fram um þetta efni.

Varðandi það hvað ríkisstjórn og ráðherra telji best að gera til að draga enn frekar úr losun lofttegunda þá er í gildi aðgerðaáætlun um að draga úr nettó-losun gróðurhúsalofttegunda. (Forseti hringir.) Þar er tekið á flestum uppsprettum auk bindingar með skógrækt og landgræðslu. Ég tel rétt að skoða frekari aðgerðir. Þar má t.d. nefna aukna rafbílavæðingu, en í nýlegri úttekt OECD er bent á þann kost og (Forseti hringir.) er einnig rétt að skoða betur loftslagsvænar lausnir í sjávarútvegi. Þar bind ég nokkrar vonir við nýjan vettvang Oceana um græna tækni sem nýlega er búið að setja á laggirnar. Ég mun koma að síðustu svörunum í síðara svari mínu í dag.