144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er svo sannarlega mál dagsins og ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Umræðan um loftslagsmál hefur verið mikil, sérstaklega nú í haust, þá fengu umhverfisráðherra og forsætisráðherra í hendurnar bréf sem loftslagshópur skrifaði þeim og krafa var gerð um að þjóðarleiðtogar mundu taka frumkvæði og sýna ábyrgð.

Sérstök áhersla var lögð á tvo þætti og vörðuðu með afdrifaríkum hætti hagsmuni Íslands sem og annarra þjóða. Annars vegar er um að ræða súrnun sjávar, þar sem síaukin losun koltvísýrings út í andrúmsloftið hefur mjög mikil áhrif á sýrustig sjávarins og afleiðing súrnunar ógnar framtíð Íslendinga ekki síður en hækkun yfirborðs ógnar lífsgrundvelli víða á láglendum eyjum.

Hitt atriðið varðar olíuvinnsluna. Það sem er afar tvísýnt er hvort okkur, mannkyninu, tekst að ná settu marki, þ.e. að halda breytingum á hitastigi andrúmsloftsins til langrar framtíðar innan við 2 gráður. En eftir leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmálin nú í haust, þar sem hæstv. forsætisráðherra lýsti yfir stuðningi við yfirlýsingu um að verðleggja ætti kolefnið, fór ég að velta ýmsu fyrir mér. Þar kom fram að stjórnvöld hétu því að vinna að því að styrkja gjaldtöku af losun kolefnis og fylgja henni betur eftir. Mér finnst það mjög sérstök og í raun áhugaverð yfirlýsing í ljósi þess að síðastliðið vor lækkaði ríkisstjórnin kolefnisgjöldin og leggur nú til að lækka þau vegna gjaldskyldrar losunar á gróðurhúsalofttegundum samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi og loftslagssjóðurinn fær líka að gjalda þess.

Ég vona svo sannarlega að það sem forsætisráðherra og umhverfisráðherra hafa sagt um þetta marki stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í þessum málum, því að gjaldtaka af losun kolefnis er mikilvæg leið til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum sem eru stærsta og mikilvægasta mál samtíðarinnar. Ég treysti því að við munum sjá breytingar á fjárlagafrumvarpinu og (Forseti hringir.) frumvarpi um ýmsar forsendur fjárlaga, um styrkingu kolefnisgjaldtöku og fleiri breytingar sem tengjast (Forseti hringir.) aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og umhverfisráðherra og forsætisráðherra hafa ítrekað fjallað um.