144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hefja umræðu um þessi stóru og mikilvægu mál sem losun gróðurhúsalofttegunda og súrnun sjávar eru. En það er af mörgu að taka og eru margir litlir og stórir þættir í því. Því er rétt að átta sig aðeins á því hvar við erum stödd í því öllu saman.

Á meðan við ræðum þetta er eldgos í gangi sem losar meira af brennisteinsgasi á dag en öll ríki Evrópusambandsins. Hvað getur þá litla Ísland gert í þessu og hvað ef stórveldin taka ekki öll þátt í þessari baráttu? Hvaða áhrif getum við haft? Við verðum að trúa því að margt smátt geri eitt stórt. Auðvitað eigum við að taka þátt í baráttunni og sýna ábyrgð og reyna að hafa þau áhrif sem við getum haft, bæði með aðgerðum okkar og með því hvernig við tölum og eins með því að sýna gott fordæmi.

Þá þurfum við líka að vera tilbúin að ræða hvaða möguleika við höfum til að ná árangri. Ég tel það skyldu okkar nýta alla þá grænu orku sem við höfum hér og nýta þá virkjanakosti og aðra kosti sem taldir eru náttúruvænir og hagkvæmir. Við eigum að vera ófeimin við það og leggja þannig okkar af mörkum og nota græna orku. Við þurfum líka að skoða sjávarútveginn í þessum efnum. Við leggjum gríðarlega miklar álögur á sjávarútveginn en þar hefði annars mögulega verið hægt að fjárfesta í nýjum skipaflota, sem er mjög dýr. Hann mundi menga mun minna, en einn stærsta mengunarþáttinn vegna útblásturs í dag má rekja til hins gamla skipaflota.

Við verðum því að þora að taka þetta allt saman og spá í hvaða þýðingu það hefur. Það er ekki nóg að segjast ætla að taka á í þessu en þora svo ekki að gera það.