144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Stóru tíðindin í hinni nýju skýrslu eru að hún flytur ekki ný tíðindi um þá hættu sem stafar af loftslagsbreytingum. Hún flytur okkur fyrst og fremst þau tíðindi að nú sé enginn vafi lengur um þessa miklu hættu og að enginn geti skýlt sér lengur bak við vísindalega óvissu.

Mér hefur alltaf þótt vænt um hina gömlu hendingu „Föðurland vort hálft er hafið“. Það er nákvæmlega það sem við stöndum frammi fyrir núna, að tilvist okkar sem sjávarútvegsþjóðar er í stórhættu. Við getum ekki vikist undan ábyrgð í þessum málaflokki. Ég fagna þeim ummælum sem hæstv. ráðherra hefur látið falla hér, og forsætisráðherra líka áður, um frumkvæði af Íslands hálfu. Ég tek hins vegar undir það sem hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að það kallar á ábyrgð og útfærslu. Hvert verður þá nákvæmlega hlutverk ríkisstjórnarinnar í að knýja á um að Ísland verði laust við jarðefnaeldsneyti? Þá þarf að vinna hratt áfram að uppbyggingu innviða til að gera orkuskipti í samgöngum möguleg og sömuleiðis þarf að huga að aðgerðum fyrir fiskiskipaflotann.

Ég mundi þá vilja fá að sjá sem allra fyrst tímasetta áætlun um það hvenær við hygðumst ná markverðum árangri að þessu leyti.

Það er óhjákvæmilegt líka, um leið og við grípum til aðgerða sem þessara, að við endurhugsum hugmyndina um að leita olíu og nytja hana sjálf, þótt ekki væri fyrir annað en að ef við ákveðum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti og viljum vera sú fyrirmynd höfum við áhrif á eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti. Hið sama gera þá vonandi líka fleiri þjóðir (Forseti hringir.) ef við meinum eitthvað með því sem við segjum. Og það hefur þá aftur áhrif á það (Forseti hringir.) hver eftirspurn eftir frekara jarðefnaeldsneyti verður. (Forseti hringir.) Það kann að vera þannig að hugmyndir okkar um mikla olíuvinnslu (Forseti hringir.) séu þess vegna nokkuð sem við þurfum að endurhugsa frá grunni í ljósi nýjustu tíðinda.