144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi þátttöku okkar í alþjóðlegum aðgerðum, eða því miður er kannski nær að tala um viðleitni enn sem komið er, er vonandi ekki neinn ágreiningur um það að Ísland á að vera þar í fremstu röð og á að setja sér metnaðarfull markmið. Veitir ekki af miðað við umræðuna eins og hún leggst stundum hér heima um þessar afdrifaríku breytingar þar sem sumir virðast uppteknari af því sem þeir kalla möguleika á tækifæri í þessum efnum en þeim grafalvarlegu hættum sem að okkur steðja og mannkyninu öllu. Mestu máli skiptir held ég að við sýnum í verki hér heima fyrir gagnvart þeim þáttum sem við getum haft áhrif á að okkur sé alvara. Ég hef alltaf smábakþanka þegar við teflum því fram að við stöndum svo vel af ástæðum sem engin meðvituð stefna hefur í sjálfu sér legið á bak við. Við erum einfaldlega svo heppin að orkuframleiðsla okkar byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum og við erum svo heppin að við höfum heitt vatn til að hita upp húsin, en það kom ekki til sem viðbrögð okkar við hlýnun jarðar.

Hér heima getum við og þurfum, ef okkur er alvara, að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Það blasir við að það er stóra verkefnið fyrir Ísland, þar er jarðefnaeldsneyti berandi. Í því sambandi er hálfvandræðalegt að í dag skuli vera óvissa um það hvort niðurfelling tolla og aðflutningsgjalda á rafbílum heldur áfram. Ég hef ekki enn fengið svör við því hvort það verður framlengt.

Við þurfum að leggja grænar áherslur í atvinnumálum. Það er vandræðalegt að núverandi ríkisstjórn hefur meira og minna stútað því sem lagt var af stað með á síðasta kjörtímabili í sambandi við grænkun atvinnulífsins, grænan fjárfestingarsjóð og annað í þeim dúr. Við þurfum að halda áfram með að efla almenningssamgöngur. Við þurfum að stuðla að orkuskiptum í iðnaði og reyna (Forseti hringir.) að glíma við vandamál sem tefja fyrir henni eins og ónóg flutningsgeta raforkukerfisins og við þurfum að berjast (Forseti hringir.) gegn orkusóun og fyrir orkusparnaði svo nokkur konkret dæmi séu nefnd.