144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa mikilvægu umræðu. Á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir vandanum og enginn deilir lengur um að breytingar eru af mannavöldum, þá viljum við helst ekki grípa til aðgerða, raunverulegra aðgerða, vegna þess að það krefst breytinga á lifnaðarháttum. Það er kannski líka vegna þess að hættan sem við stöndum frammi fyrir er að mörgu leyti óáþreifanleg og hún er inni í framtíðinni. Við á Íslandi erum jafnvel að gæla við hugmyndina um heitari sumur og mildari vetur og opnun siglingaleiða og erum kannski svolítið upptekin af því hvernig loftslagsbreytingar geta þjónað okkar hagsmunum.

Þetta er, eins og kom fram hér í góðum ræðum, grafalvarlegt mál. Við getum ekki varpað ábyrgðinni frá okkur. Mér finnst við reyndar hafa sýnt litla framsýni í umhverfismálum yfir höfuð. Á sama tíma og nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndunum voru að ýta undir notkun á sparneytnum bílum með skattalegum hvötum afnámum við vörugjöld á jeppum, til að taka dæmi. Ef einhver þjóð ætti að vera búin að rafbílavæða sig þá er það Ísland.

Vandamálið er að einhverju leyti það að hagkerfi okkar byggist á því að hagvöxtur aukist ár frá ári. Þar er einkaneyslan mjög mikilvæg og í rauninni framleiðslan sem stendur undir einkaneyslunni.

Mig langar að nefna það hér að samtökin Adbusters sem berjast gegn neysluhyggju hafa sett á fót „buy nothing day“ eða kauptu ekkert-daginn í nóvember. Þegar þau fyrir mörgum árum ætluðu að auglýsa viðburðinn í Bandaríkjunum neituðu margir helstu fjölmiðlar að birta auglýsinguna vegna þess að hún samræmdist ekki stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum sem er í raun sú að ýta undir einkaneyslu, fá meiri virðisaukaskatt í kassann og þar fram eftir götunum. Þetta er vandamálið. Við þurfum að breyta lifnaðarháttum og við virðumst almennt ekki tilbúin til þess. Þetta er umræða sem við þurfum að taka.