144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Ég verð í seinni ræðu minni að deila áhyggjum sem ég hef. Ég hef áhyggjur af því að ekkert verði úr þessari umræðu. Ég hef áhyggjur af því að hagsmunir okkar sjálfra skarist á við aðra hagsmuni okkar og að við sjáum skammtímahagsmuni okkar sem mun stærri en langtímahagsmuni. Þegar ég á við okkur á ég við allt mannkyn.

Ísland gæti þurft að gefa upp á bátinn eigin hagsmuni fyrir allt mannkyn til lengri tíma. Ég sé það ekki gerast í stjórnmálalífinu. Ég sé engan sem ætlar að lofa því í næstu kosningum að verða af skatttekjum, að minnka lífsgæði Íslendinga. Það getur vel verið ein af þeim fórnum sem við þurfum að færa.

Ef við ætlum að taka upp rafbíla sem dæmi, en ég er hlynntur því, mér finnst að við eigum að reyna að rafbílavæða allan bílaflotann ef við mögulega getum upp að því marki sem raunhæft er, þá þýðir það að bílarnir ná ekki jafn langt. Við þurfum að lifa við það að bílarnir komist ekki jafn hratt. Við þurfum að lifa við það að oft þurfi að hlaða þá og heldur lengi. Við þurfum að lifa við það. Allt þetta hefur neikvæð efnahagsleg áhrif að einhverju leyti.

Ætlum við að gefa upp á bátinn draum um að hafa olíusjóð á borð við þann sem er í Noregi? Ætlum við að gefa upp á bátinn drauminn um sæstreng með rafmagni til Bretlands? Ætlum við að gefa upp á bátinn skatttekjur af olíu og bensíni? Það eru svona spurningar sem við þurfum að svara og svarið þarf að vera já. Ef við erum ekki til í það þá verðum við bara að horfast í augu við það að við viljum þetta ekki. Okkur langar ekki að bjarga mannkyni.

Ég ætla að neita að trúa því til þess að reyna að vera bjartsýnn, en það verður að benda á þetta. Þetta kostar. Þetta kostar helling. Þetta kostar fórnir, miklar fórnir. Við verðum að geta horfst í augu við það að við þurfum að færa þær.

Þegar kemur að lausnum, eins og ég sagði fyrr, tel ég rafmagn vera einu raunhæfu langtímalausnina. Það er hægt að nota metan til skemmri tíma. Það er hægt að framleiða metan úr rusli meðal annars og það er lífrænt, það mengar og hefur neikvæð áhrif, en ekki jafn slæm og olían hefur nú. Sennilega þyrfti því raunhæf áætlun að vera kaflaskipt (Forseti hringir.) þar sem við tækjum upp einn kost umfram annan í bili, á meðan við værum að finna út úr vandamálum sem fylgja t.d. rafhlöðum. (Forseti hringir.) Hér þarf ekki bara hugrekki heldur líka fórnir.

(Forseti hringir.)Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.