144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu.

Varðandi það sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á, að kolefnisvistspor Íslendinga væri það stórt að ef allar aðrar þjóðir höguðu sér eins þá þyrfti tíu jarðir, er þess að geta að ef þær vörur sem væru framleiddar hér með endurnýjanlegri orku væru framleiddar með jarðefnaeldsneyti annars staðar þyrfti miklu fleiri en tíu jarðir til þess. Það er þessi þversögn sem felst í því að nýta endurnýjanlega orku til að framleiða vöru sem ellegar væri framleidd með kolum, olíu eða gasi annars staðar.

Það er rétt sem hér kom fram að losun frá sjávarútvegi hefur farið minnkandi með nýrri skipum og vaxandi tækni. En þar þarf að gera betur. Það er rangt sem kom fram að hér væri einhver stefnubreyting hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin setti umhverfismálin mjög ofarlega á oddinn í stjórnarsáttmálanum. Við erum að fylgja því eftir. Það er rétt að við erum heppin að búa á Íslandi, landi tækifæra en þar blasa vissulega við ógnir. En það er rangt að við höfum verið heppin að búa við það að hér sé engin stefna. Þeir sem tóku þá ákvörðun að fara að nýta jarðhita, til að mynda í höfuðborginni og síðan á landinu öllu á 7. og 8. áratugnum, voru að taka gríðarlega framsýna stefnu, framúrstefnulega stefnumörkun um að nýta endurnýjanlega orku á skynsamlegan hátt. Sú stefna sem við höfum fylgt í umhverfismálum hefur verið mjög árangursrík.

Við nýtum skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis til þess að binda kolefni. Við dælum niður á Hellisheiðinni, það er verkefni sem framkvæmdastýru loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, Christiana Figueres, fannst mjög áhugavert. Einnig erum við að gera marga góða hluti á sviði jarðvarma og þróunaraðstoðar á því sviði og landgræðslu reyndar líka.

Við losum 0,01% af öllu því sem losað er í heiminum. (Forseti hringir.) Við getum hins vegar gert betur. Við getum haldið áfram að vera fyrirmyndarland (Forseti hringir.) og það er vissulega eftirsóknarvert að taka skrefið lengra. Það eru sannarlega tækifæri til þess og að því mun (Forseti hringir.) ríkisstjórnin og umhverfisráðherra vinna. Ég þakka fyrir umræðuna.