144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

um fundarstjórn.

[13:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir viku kvaddi ég mér hljóðs undir þessum lið til að kvarta undan því að ekki hefur borist svar við spurningu minni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um virðisaukaskatt sem einstaklingar greiða sem er greint eftir tekjubilum og virðisaukaskattsþrepum. Forseti sagði þá að hæstv. ráðherra hefði fengið frest til 6. nóvember, sem var á fimmtudaginn, til að skila svari við þessari spurningu — sem var lögð fram 18. september.

Samkvæmt upplýsingum forseta er núna rétt rúmur hálfur mánuður í að við ræðum fjárlögin við 2. umr. Þessar upplýsingar eru afar mikilvægar undir eitt stærsta mál þess frumvarps í skattamálum hæstv. ráðherra. Ég fer þess á leit við virðulegan forseta að hann beiti sér fyrir því og standi með hv. þingmönnum hvað það varðar að svörin fari að berast.

Reyndar stendur einnig á svari um barnabætur sem hefði verið gott að hafa (Forseti hringir.) hér undir umræðum í dag um fjáraukalögin. Þeim spurningum var dreift 23. september.