144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[13:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hóf mál sitt í stjórnarandstöðu eins og hans er siður hér í þinginu en ég reikna hins vegar með því að þegar kjörtímabilið verður hálfnað fari hæstv. forsætisráðherra í ríkisstjórn. Ég bíð spennt eftir því andartaki.

Mig langar þá beinlínis að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra telur stöðuna með þeim hætti sem hann lýsti, er þá stefnt á að bæta við framlög til Landspítalans í fjáraukalagafrumvarpinu þar sem ekki er gert ráð fyrir framlögum til rekstrar Landspítalans, og við 2. umr. fjárlaga? Á ég að skilja orð hæstv. forsætisráðherra sem svo, sem talar um að þessi mál séu forgangsmál? Mig langar að heyra svör við því hér á eftir.

Mig langar líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra, ég endurtek spurningu mína: Er hann sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um að ekki sé rétt að fara í samráð allra flokka á Alþingi um byggingu nýs Landspítala og að málið sé eingöngu á borði ríkisstjórnarinnar eða vill hæstv. forsætisráðherra skapa víðtækari sátt um málið?