144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

aðgengi að upplýsingum.

[14:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í sambandi við þessi fyrstu tvö atriði, Landsbankabréfið og aðgang að upplýsingum varðandi skuldaleiðréttinguna, spyr ég hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála því að þetta sé eitthvað sem vinna þurfi að, að gera hlutina og setja gögnin þannig að auðvelt sé að gera þau aðgengileg; annars þarf að fara í alls konar vinnu. Önnur ríki hafa gert þetta.

Lagt hefur verið fram þingmál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þess efnis að fjármál hins opinbera verði gerð aðgengileg. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að það sé sú vegferð sem við eigum að fara í og setja svolítinn fókus á? Það mun þá aftur spara mörg mannsverk í alls konar upplýsingaöflun.

Varðandi aðgengi þingmanna að upplýsingum til að vinna breytingartillögu: Staðan er sú, bara svo að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því, að nefndarritari í fjárlaganefnd þarf að handpikka inn í excel-skjal allar tölurnar úr frumvörpum hæstv. ráðherra og þarf að sannreyna þær og athuga hvort þær séu réttar í staðinn fyrir að (Forseti hringir.) upplýsingar af þessu tagi komi bara beint frá ráðuneytinu. Það mundi þýða að þingmenn gætu unnið vinnuna sína betur og þyrftu minna að leita til ráðuneytisins með alls konar fyrirspurnir.